Færsluflokkur: Bloggar

Eru 170 einangruð ríki í heiminum?

Ef Ísland gengur ekki í Evrópusambandið einangrast landið. Þetta heyrist reglulega úr hópi þeirra sem styðja inngöngu Íslands í sambandið þrátt fyrir að Ísland eigi í víðfemu alþjóðlegu samstarfi meðal annars í gegnum fjölmargar alþjóðastofnanir og tvíhliða samninga og sé klárlega á meðal alþjóðavæddustu ríkja heimsins.

Hvenær varð það mælikvarði á það hvort ríki teljist einangruð hvort þau eru í Evrópusambandinu eða ekki? Það eru 27 ríki í sambandinu af þeim í kringum 200 sem fyrirfinnast í heiminum. Eru þá í kringum 170 einangruð ríki í heiminum? Er Kanada þá einangrað fyrst það stendur utan Evrópusambandsins eða Noregur svo dæmi séu tekin.

Á hinn bóginn má færa rök fyrir því að með inngöngu í Evrópusambandið yrði dregið verulega úr vægi Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Einkum þar sem mikið vald í þeim efnum, einkum til þess að gera viðskiptasamninga við önnur ríki, yrði framselt til stofnana sambandsins þar sem vægi Íslands yrði lítið og möguleikar á áhrifum eftir því.

Vert er að hafa í huga að Evrópusambandið er í grunninn tollabandalag sem sviptir ríki sín meðal annars frelsi sínu til þess að gera sjálfstæða viðskiptasamninga við ríki utan þess, meðal annars um fríverzlun. Þá hefur verið unnið leynt og ljóst að því að koma á einni sameiginlegri utanríkisstefnu sambandsins sem kæmi í staðinn fyrir sjálfstæðar utanríkisstefnur ríkjanna.

Það er nefnilega ansi hætt við því að mesta hætta Íslands hvað einangrun varðar sé þvert á móti að einangrast innan Evrópusambandsins frá sjálfstæðum samskiptum og viðskiptum frá þeim mikla fjölda ríkja sem standa utan sambandsins þar sem flest bendir til þess að framtíðarmarkaðina sé að finna frekar en í hinni hnignandi Evrópu.

Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1249291/  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband