Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Losun hafta: Þrotabú bankanna greiði alfarið í ISK

frostisigurjons

Ekki er ljóst hvort þrotabú gömlu bankanna greiða kröfuhöfum út í blöndu af gjaldmiðlum og krónum, eða eingöngu krónum. Greiði þrotabúin alfarið út í krónum gefur það Seðlabanka einstakt tækifæri til að leysa gjaldeyrishöftin, um leið og dregið er úr hættu á því að kröfuhöfum þrotabúa verði mismunað.

Slitastjórnum þrotabúa ber samkvæmt lögum að gera upp allar kröfur í íslenskum krónum. Venjulega fara greiðslur einnig út í krónum, enda dregur það úr líkum á mismunun á milli kröfuhafa vegna gengisbreytinga sem orðið geta á útgreiðslutímabilinu. Þetta skiptir máli því kröfuhöfum verður ekki greitt út á sama tíma. Við þetta bætist að íslenskir kröfuhafar eru skilaskyldir á gjaldeyri en ekki erlendir sem eykur á mismunun verði greitt út í gjaldmiðlum.

Lög gera reyndar ráð fyrir því að útgreiðslur úr þrotabúum séu bundnar höftum, sem þýðir að erlendir kröfuhafar geta ekki tekið þann gjaldeyri úr landi sem þeir fá hjá þrotabúum. Seðlabankinn er að vinna að reglum um þetta og ekki víst hver útkoman verður. Best væri samt að búin greiddu alfarið í krónum.

Þrotabúin eiga líklega ígildi kr 1700 milljarða í erlendum eignum en kr 1000 milljarða í innlendum eignum (nokkur óvissa um raunstærðir). Greiði búin alfarið út í krónum þyrftu þau að kaupa krónurnar af Seðlabankanum og greiða fyrir þær með 1700 milljörðum í gjaldeyri. Kröfuhafar væru þá allir í sömu aðstöðu með krónur í höndum. Tækifærið felst í því að ef Seðlabankinn fær andvirði 1700 milljarða í gjaldeyri þá er hann kominn í aðstöðu til að grynnka verulega á gjaldeyrishöftum með stóru uppboði.

Ef sem dæmi 2000 milljarða vilja fara úr landi þá yrðu afföllin í slíku uppboði um 15% frá núverandi gengi. Þeim sem ekki vildu flytja fé sitt úr landi með þeim affölum sem byðust í uppboðinu væri heimilt að færa fjármagn úr landi síðar, en greiða þá útgönguskatt til ríkisins. Skatturinn yrði í fyrstu t.d. 5% hærri en afföllin í útboðinu til að hvetja menn til að taka þátt í útboðinu. Útgönguskatturinn væri þá 20% í upphafi en færi svo lækkandi mánaðarlega. Hraði lækkunar gæti svo ráðist af útstreymi, ef það væri lítið mætti lækka útgönguskattinn hraðar. Þannig væru höftin brátt úr sögunni með lágmarks kostnaði fyrir ríkið og skattgreiðendur.

Það má vissulega sjá fyrir sér ýmsar aðrar útfærslur á losun hafta, en það er samt algert lykilatriði að þrotabúin greiði kröfuhöfum sínum í krónum til að lágmarka mismunun kröfuhafa og færa Seðlabanka það tækifæri að bjóða upp gjaldeyri þrotabúanna. Það má ekki gleymast að “snjóhengjan” svokallaða, sem nú kallar á höft, varð til í gömlu bönkunum sem slitastjórnir eru nú að skipta á milli kröfuhafa. Snjóhengjan hefur á vissan hátt verið slitin úr samhengi við þrotabúin og sett á herðar almennings í landinu.

Það er ekki of seint að afstýra því óréttlæti að almenningur borgi höftin. En þá verður að tryggja að þrotabúin greiði kröfuhöfum alfarið út í krónum og Seðlabankinn fái gjaldeyri þrotabúana til að leysa þjóðina úr gjaldeyrishöftum.

Höfundur: Frosti Sigurjónsson http://mbl.is/vidskipti/pistlar/frostisig/1250825/ 


Eru 170 einangruð ríki í heiminum?

Ef Ísland gengur ekki í Evrópusambandið einangrast landið. Þetta heyrist reglulega úr hópi þeirra sem styðja inngöngu Íslands í sambandið þrátt fyrir að Ísland eigi í víðfemu alþjóðlegu samstarfi meðal annars í gegnum fjölmargar alþjóðastofnanir og tvíhliða samninga og sé klárlega á meðal alþjóðavæddustu ríkja heimsins.

Hvenær varð það mælikvarði á það hvort ríki teljist einangruð hvort þau eru í Evrópusambandinu eða ekki? Það eru 27 ríki í sambandinu af þeim í kringum 200 sem fyrirfinnast í heiminum. Eru þá í kringum 170 einangruð ríki í heiminum? Er Kanada þá einangrað fyrst það stendur utan Evrópusambandsins eða Noregur svo dæmi séu tekin.

Á hinn bóginn má færa rök fyrir því að með inngöngu í Evrópusambandið yrði dregið verulega úr vægi Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Einkum þar sem mikið vald í þeim efnum, einkum til þess að gera viðskiptasamninga við önnur ríki, yrði framselt til stofnana sambandsins þar sem vægi Íslands yrði lítið og möguleikar á áhrifum eftir því.

Vert er að hafa í huga að Evrópusambandið er í grunninn tollabandalag sem sviptir ríki sín meðal annars frelsi sínu til þess að gera sjálfstæða viðskiptasamninga við ríki utan þess, meðal annars um fríverzlun. Þá hefur verið unnið leynt og ljóst að því að koma á einni sameiginlegri utanríkisstefnu sambandsins sem kæmi í staðinn fyrir sjálfstæðar utanríkisstefnur ríkjanna.

Það er nefnilega ansi hætt við því að mesta hætta Íslands hvað einangrun varðar sé þvert á móti að einangrast innan Evrópusambandsins frá sjálfstæðum samskiptum og viðskiptum frá þeim mikla fjölda ríkja sem standa utan sambandsins þar sem flest bendir til þess að framtíðarmarkaðina sé að finna frekar en í hinni hnignandi Evrópu.

Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1249291/  


Færi aldrei fyrir dómstóla?

Einhverjir sem studdu Icesave III samningana og jafnvel samningana sem gerðir voru á undan þeim hafa að undanförnu viljað meina að andstæðingar samninganna hafi haldið því fram í aðdraganda þjóðaratkvæðisins fyrir ári að Icesave-málið færi aldrei fyrir dómstóla ef samningunum yrði hafnað.

Þetta er þó ekki rétt. Það var einmitt kallað eftir því af þeim að farin yrði svonefnd dómstólaleið. Allajafna var ekki gert ráð fyrir öðru en að málið færi þá leið yrði samningunum hafnað og þá ekki sízt í ljósi þess að Eftirlitsstofnun EFTA hafði þegar hótað málssókn fyrir EFTA-dómstólnum.

Hins vegar var því haldið fram að ef niðurstaðan fyrir EFTA-dómstólnum yrði Íslendingum óhagstæð þá væri afar ólíklegt að Bretar og Hollendingar létu af því verða að fara í skaðabótamál gegn íslenzka ríkinu sem reka þyrfti fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem er varnarþing ríkisins.

Það eru þessi tvö dómsmál sem einhverjir hafa verið að rugla saman.

Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson  http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1233971/#comments 

Ögmundur við ætlum EKKI á hnén. ESB umsókninni er sjálfhætt.

Ögmundur Jónasson spyr hvort við ætlum á hnén?  Nei við ætlum ekki á hnén, en því miður eru samstarfmenn hans í ríkisstjórn á því að við eigum að fara á hnén.  Þeir eru margir löngu komnir á hnén og líkar það vel að virðist vera.  Þeir hafa einhverja aðra sýn sem þeim líkar svo vel!  Nú þarf Ögmundur að standa í lappirnar og framkvæma það sem hugurinn og hjartað segir honum að gera.  Ekkert er merkilegra en að standa með þjóð sinni og sjálfstæði hennar þegar á reynir.  Ólafur Ragnar gerði það í Icesavemálinu og uppskar fyrirgefningu hverra þeirra synda sem hann átti að hafa gert.  Í þessu máli er ekkert sem heitir að ná saman um stríðandi fylkingar.  Finna lausn sem allir geta sætt sig við.  Þetta er ekki flóknara en að annars vegar erum við að ganga í ESB og hins vegar viljum við það ekki, sama hvað samningurinn segir.  Stjórnmálamenn þurfa að taka hreina afstöðu í þessu máli og hætta að skýla sér á bak við loðin orð til að hanga lengur í embætti.  Þjóðin var ekki spurð hvort hún vildi í þessar viðræður heldur var umsókninni lætt í gegnum alþingi í krafti meirihluta fólks sem kaus samkvæmt sannfæringu sinni, ekki stefnu flokks síns.  Trúlega voru og eru margir enn í vitlausum flokkum!  Óneitanlega kemur persónukjör upp í hugann og hvort það væri ekki heiðarlegra!  Þá vissum við alla vega fyrir hvað fólk stendur, því ekki stoðar lengur að lesa stefnu flokkanna og treysta því að flokksmenn velji frambjóðendur fari að vilja þeirra! 

Það eina rétta í stöðunni nú er að afturkalla umsóknina með tilkynningu frá stjórnvöldum. Það má þess vegna leggja hana til hliðar þar til úr Icesave málinu verður skorið.  En heiðarlegast af öllu væri að þakka bara pent fyrir okkur, og segja nei takk, þetta hentar okkur ekki að sinni.  Snúa okkur hér að uppbyggingu, atvinnusköpun og frelsi fólks til athafna og nýsköpunar.  Nóg er af tækifærum það þarf miklu frekar að virkja fólk til þess að þora af stað með hugmyndir sínar og grípa tækifærin í því árferði sem nú ríkir.  Óvissa er ekki góð fyrir neinn rekstur hvorki fyrirtæki né heimili.  Heimilin geta ekki verið án fyrirtækjanna og öfugt.  Ríkið getur heldur ekki verið án fyrirtækjanna og heimilanna.  

Þetta er það Ísland sem við þekkjum og við viljum bara fá að njóta þess aftur og halda áfram að búa hér á þessu fallega náttúru Fróni.

Við eigum gnægtir af öllu, bara ef við kunnum að fara með þessar gnægtir og nýta þær skynsamlega en ekki í skyndigróða andartaksins.

Höfundur: Vilborg G Hansen 


mbl.is Segir ESB vilja Íslendinga niður á hnén
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýst um gengi gjaldmiðla

Ég skrifaði í gær um verðlagið í Svíþjóð og frétt Ríkisútvarpsins um að Norðmenn flykktust þangað til þess að verzla og væru þannig að kjósa Evrópusambandið með fótunum en ólíkt Svíum eru frændur okkar Norðmenn ekki þar innaborðs.

Eins og ég benti á verður að setja alla umræðu um verðlag í löndum í samhengi við kaupmátt fólks. Á sama tíma og Norðmenn fara til að verzla ódýrar í Svíþjóð hópast Svíar til Noregs til þess að fá vinnu og betri laun en í heimalandinu.

En fólksflutningarnir eru fleiri. Þannig hafa Danir um árabil einnig hópast til Svíþjóðar til þess að verzla ódýrar en heimafyrir. Danmörk er eins og Svíþjóð í Evrópusambandinu en danska krónan er hins vegar beintengd við gengi evrunnar ólíkt þeirri sænsku.

Sé framsetning Ríkisútvarpsins yfirfærð á Dani hlýtur sú ályktun að vera dregin að þeir séu með verzlunarferðum sínum til Svíþjóðar að kjósa með fótunum og lýsa yfir óánægju sinni með tengingu dönsku krónunnar við evruna.

Málið snýst fyrst og fremst um gengi gjaldmiðla. Á meðan sænska krónan hefur lækkað og þar með gert sænskar vörur samkeppnishæfari hefur gengi norsku krónunnar hækkað. Danska krónan hefur á sama tíma haldist tiltölulega há vegna tengingarinnar við evruna.

Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1233540/ 


Matvælaverðið í Svíþjóð

 

"Munur á matarverði milli Noregs og Svíþjóðar hefur aukist stöðugt frá því Svíar gengu í Evrópusambandið fyrir 18 árum. Nú fyllyrða kaupmenn að þeir geti selt mat, til dæmis nautakjöt, á hálfvirði miðað við verð í Noregi. Oft munar þó þriðjungi. Því er sagt að þeir sem sögðu nei við aðild Noregs að sambandinu fyrir 18 árum kjósi nú með fótunum og taki sér stöðu við búðarkassana innan sænsku landamæranna."

Þessi texti er fenginn úr frétt sem birtist á vef Ríkisútvarpsins í gær. Ég hef aðeins verið að skoða þá umræðu sem hefur verið um hana á netinu og réttilega hafa ýmsir bent á að á sama tíma hópist Svíar til Noregs í vinnu. Bæði sé atvinnuleysi minna í Noregi og launin allajafna mun hærri.

Hvað fæst fyrir launin?

Það sem gleymist gjarnan að taka inn í myndina þegar verðlag er borið saman á milli landa (að því gefnu að um sambærilegar vörur sé að ræða sem allur gangur er víst á) er kaupmátturinn. Neytendur græða lítið á lágu verðlagi ef þeir geta lítið sem ekkert keypt fyrir launin sín.

Þannig má nefna að þegar íslenzkt verðlag var hér á árum áður borið saman við það sem gerðist annars staðar í Evrópu reyndist verðlagið iðulega lægst í Búlgaríu og Rúmeníu. En það verður hins vegar að teljast ólíklegt að Íslendingar gætu sætt sig við þarlend launakjör.

Þetta tvennt helst þó gjarnan í hendur. Verðlagið er oft hærra vegna þess að kaupmátturinn er meiri. Það væri lítið gagn í því að bjóða norskt vöruverð til dæmis í Rúmeníu. Það gætu sárafáir þar í landi keypt vörur á því verðlagi. En fólk getur það í Noregi.

Verðlag svipað og í ESB

Það er reyndar athyglisvert að samanburður á verðlagi á Íslandi og annars staðar í Evrópu sé ekki lengur reglulega í fréttum hér á landi. Ástæðan er ef til vill sú að verðlag hér eftir bankahrun mun hafa verið nokkurn veginn á pari við það sem gerst hefur að meðaltali innan Evrópusambandsins.

Þess utan er það merkileg ályktun í fréttinni að Norðmenn séu að kjósa með fótunum með því að verzla í Evrópusambandsríkinu Svíþjóð. Ekki sízt í ljósi nýjustu skoðanakannana þar í landi sem sýnt hafa einungis 12-13% hlynnt inngöngu í Evrópusambandið.

Það verður ekki séð að þetta hafi neitt með pólitík að gera. Norðmenn hafa skiljanlega ekkert á móti því að borga minna fyrir vörur í Svíþjóð. En þeir vilja hins vegar líklega ekki sænskan kaupmátt eða sænskt atvinnuleysi.

Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1233328/  


Gjaldmiðill gulli betri

Eitt mikilvægasta verkefni sem stjórnvöld geta annast fyrir landsmenn er að halda úti traustum gjaldmiðli. Sjálfstæður og vel rekinn gjaldmiðill sem tekur mið af þörfum hagkerfisins á hverjum tíma getur aukið hagvöxt og lífsgæði í landinu verulega umfram það sem mögulegt væri ef hér væri notuð erlend mynt.

 

Til mikils að vinna 
Þótt hér hafi orðið bankahrun og krónan bæði ofrisið og hrunið þá má ekki missa móðinn. Allt of margir vilja bara gefast upp. Ísland er ekki eina þjóðin sem hefur fengið skell. Norðmenn og Svíar lentu í bankakreppum á níunda áratugnum en hafa þrátt fyrir það náð góðum árangri í kjölfarið. Það getum við einnig og það ætti að vera okkar staðfasta markmið. Þrátt fyrir alls kyns mistök hafa lífsgæði landsmanna tekið ótrúlegum framförum. Ísland var eitt fátækasta land Evrópu fyrir rúmum mannsaldri síðan. Í dag, jafnvel eftir efnahagshrun, eru fá lönd sem geta státað af jafn góðum lífskjörum og Ísland. Vera má að dönsk króna hafi haldið verðgildi sínu 2.000 sinnum betur en krónan okkar, en trúir því einhver að hér væru lífskjör 2.000 sinnum betri ef hér hefði verið dönsk króna? Það mætti frekar spyrja hvort framfarir hefðu ekki einmitt verið hægari ef hér hefði verið erlend mynt í stað sjálfstæðrar krónu?

 

 

Atvinnuleysi hefði verið meira  
Það er óumdeilt að fastgengi leiðir til hærra atvinnuleysis. Ástæðan er sú að það getur tekið nokkur ár að lækka laun í niðursveiflu en það tekur ekki nema einn dag að lækka þau með gengisfellingu. Of há laun leiða til uppsagna eða gjaldþrota. Atvinnulaust fólk skapar engin verðmæti og það sem verra er, þeir sem hafa vinnu verða að borga hærri skatta til að greiða atvinnuleysisbætur. Krónan hefur oft fallið sem er vissulega slæmt en allir höfðu samt vinnu og hagsæld landsmanna jókst jafnt og þétt. Aukið atvinnuleysi hefði örugglega tafið framfarirnar.

 

 

Samdráttarskeið hefðu orðið dýpri og lengri 
Hagkerfi sem býr við fastgengi getur ekki brugðist við niðursveiflu með því að lækka gengi myntarinnar. Fjármagn streymir þá yfirleitt úr landi og til þeirra landa þar sem betur árar og betri ávöxtun býðst. Afleiðingin er enn sárari skortur á fjármagni til framkvæmda einmitt þegar mest ríður á að auka atvinnu. Lengri samdráttarskeið hefðu án efa dregið úr langtímahagvexti.

 

 

Myntsláttuhagnaður hefði runnið úr landi 
Myntsláttuhagnaður rennur til þess seðlabanka/ríkis sem gefur út gjaldmiðillinn. Myntsláttuhagnaður verður til þegar peningamagn er aukið til að mæta vexti hagkerfisins eða til að veikja gengið. Hér hefur hagkerfið iðnvæðst og margfaldast að stærð á einum mannsaldri. Íbúafjöldi landsins hefur líka margfaldast. Hér var þessu mætt með því að framleiða fleiri krónur. Án krónu hefði Ísland þurft að kaupa og flytja inn mikið magn af erlendri mynt til að auka peningamagn í umferð. Magnið samtals væri líklega nálægt grunnfé Seðlabankans í dag eða um 90 milljarðar. Það hefði því ekki verið hægt að fjárfesta jafn mikið í innviðum og framleiðslutækjum ef myntsláttuhagnaður hefði runnið úr landi í öll þessi ár.

 

 

Truflanir frá erlendu myntinni 
Erlenda myntin hefði tekið mið af aðstæðum í útgáfulandinu. Uppsveifla í því landi hefði getað leitt til hærra vaxtastigs en Íslenska hagkerfið hefði þolað. Afleiðingin hefði getað verið gjaldþrot og minni framkvæmdir og verkefni en ella. Hagvöxtur hefði því tafist. En stundum hefðu vextir verið of lágir fyrir Ísland og það leitt til offjárfestingar, jafnvel í óarðbærum verkefnum. Þessar utanaðkomandi sveiflur hefðu verið sem steinar í götu íslenska hagkerfisins og hægt á framförunum. Vonandi er ljóst af þessum dæmum að þrátt fyrir allt hefur krónan verið nauðsynlegt til að koma þjóðinni úr hópi fátækustu þjóða Evrópu í hóp þeirra ríkustu. Hún getur haldið áfram að þjóna landsmönnum um ókomin ár. Vissulega mætti tína til einhverja smávægilega ókosti og kostnaðarliði við að hafa sjálfstæða mynt. Um þessa hluti er mikið skrifað þessa dagana og best að vísa áhugasömum á þau skrif. En tilgangurinn með þessum pistli er að benda á nokkra af kostunum við að hafa sjálfstæða mynt.

 

Höfundur: Frosti Sigurjónsson http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/frostisig/1233154/ 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband