Afnám hafta: Umræður á Alþingi

Afnám gjaldeyrishafta er afar mikilvægt úrlausnarefni stjórnvalda sem hefur verið furðu lítið rætt í Alþingi. Svo bar þó við að málið komst á dagskrá að 3. maí síðastliðinn að frumkvæði Lilju Mósesdóttur. Hér verður stiklað á því helsta sem fram kom í þeirri umræðu. 

Lilja Mósesdóttir lýsti því í stuttri framsögu hvernig 1.000 milljarða krónueignir valdi erfiðleikum við afnám hafta. Þessar krónueignir séu skuldir einkaðila við aðra einkaaðila og þær haldi nú áfram að vaxa þar sem nýleg lög banni að flytja verðbætur út fyrir höft. Lilja taldi raunverulega hættu á að þessum skuldum yrði velt yfir á ríkissjóð eða skattgreiðendur. Lilja benti á tvær leiðir sem gætu leitt til þess:

Í fyrsta lagi svokallaða harðindaleið þar sem höftin væru einfaldlega afnumin og afleiðingin gengishrun krónu. Lilja varaði við því að sú leið myndi strax leiða til verri lífskjara. (væntanlega vegna hækkunar verðlags og skulda).

Í öðru lagi svonefnda skuldsetningarleið til dæmis með upptöku evru og láni frá seðlabanka Evrópu til að hleypa kröfuhöfum úr landi, eða með láni frá krónueigendum sem fengju að kaupa erlend ríkisskuldabréf fyrir krónur. Með skuldsetningarleið væri byrðunum einnig velt yfir á almenna skattborgara þótt áhrifin kæmu seinna fram.

Sú lausn sem Lilja mælti með er svokölluð skiptigengisleið með upptöku nýrrar krónu. Kröfuhafar fengju að skipta gömlum krónum yfir í nýjar með afföllum. Lilja bendir á að með því sé hægt að taka strax á þeim vanda að vissar krónukröfur séu allt of hátt metnar (hún nefndi þær froðueignir). Aflandskrónur hafi gömlu bankarnir búið til með peningaprentun og þær hafi síðar verið keyptar á hrakvirði af vogunarsjóðum. (Með skiptigengisleið lendir tapið á þeim sem tóku áhættu en almenningi er hlíft)

Lilja taldi jafnframt að útboðsleið Seðlabankans hafi valdið vonbrigðum og gangi of hægt til að geta leyst höftin á fáum árum. Hún taldi brýnt að hefja vinnu til að fyrirbyggja að snjóhengju verði breytt í skuldir skattgreiðenda og ítrekaði að staðan væri mjög alvarleg. Miklir hagsmunir í húfi og þjóðin þyrfti að spyrna við fótum, eins og í Icesave málinu, ella blasti við dökk framtíðarsýn þar sem velferðarkerfið yrði eyðilagt í þágu fjármagnseigenda.

Steingrímur J Sigfússon, VG varð fyrstur fyrir svörum í hlutverki Efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann kallaði eftir yfirvegaðri umræðu og taldi verkefnið viðráðanlegt þótt það tæki tíma. Hann tók undir það sjónarmið Lilju að ekki mætti leysa höftin með því að velta vandanum yfir á ríkið eða skattgreiðendur. Enda væru umræddar krónueignir fyrst og fremst skuldir einkaaðila.

Steingrímur taldi fjárfestingarleiðútgöngugjald og skuldabréfaskipti geta nýst til að afnema höftin án þess að raska stöðugleika í fjármálakerfinu. Ætlunin væri að láta reyna á í útboðum hversu lök kjör menn vildu sætta sig við til að komast út. Það yrði viss niðurskrift í gegnum útboðin.

Steingrímur tók fram að hluti krónueignanna væri laus, hluti bundinn í skuldabréfum eða öðrum eignum og óvíst hve hratt eigendur vildu og gætu fara með þær úr landi. Hægt væri að hindra að útstreymið yrði of hratt (útgönguskattur?).

Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisflokki, tók undir að allir kostir væru kannaðir. Hann lýsti þó efasemdum um að taka upp nýja krónu ef ætlunin væri að láta þá brenna inni sem eiga krónueignir, það taldi hann valda tjóni til framtíðar. Bjarni sagði stjórnvöld hafa aukið vandann með því að hrekja frá erlenda fjárfesta sem hefðu getað aukið gjaldeyrisflæði inn í landið. Að lokum benti hann á að gjaldmiðilsmálin væru svo mikið undirstöðuatriði að brýnt væri að ná þverpólitískri sátt um þau.

Árni Páll Árnason Samfylkingu lýsti efasemdum um upptöku nýrrar krónu til að leysa höftin. Hann vill kanna útfærslu á skuldabréfaútgáfum (ríkissjóðs?) til að ná fram afslætti og létta á höftum. Hann tók líka fram að aðgerðir mættu ekki leiða til skuldsetningar ríkissjóðs og almennings.

Sigurður Ingi Jóhannsson Framsóknarflokki, benti á að það þyrfti að flýta losun hafta en það væri mun erfiðara á meðan ráðherrar Samfylkingar töluðu gjaldmiðilinn niður. Hann taldi að nota þyrfti allar þrjár leiðirnar (fjárfestingarleið, skuldbreytingarleið og útgönguskatt) til að losa höftin en gæta þess að færa ekki vandann yfir á ríkissjóð eða almenning. Hann benti líka á mikilvægi þess að auka afgang af vöruviðskiptum við útlönd og kallaði eftir skýrri stefnu ríkisstjórnar um slíkt markmið.

Þór Saari Hreyfingunni, tók fram að sú leið sem Seðlabanki, AGS og ríkisstjórnin væru að fara virkaði ekki. Hann taldi mjög alvarlegt ábyrgðarleysi af ríkisstjórn að vera ekki löngu búin að láta sérfræðinga skoða allar leiðir til afnáms hafta. Þór taldi að skiptigengisleiðin hefði marga kosti og tók undir sjónarmið Lilju að froðueignir þyrfti að viðurkenna sem slíkar. Þór var því ekki sammála að niðurskrift froðueigna myndi draga úr trausti á hagkerfið því það væri lítið sem ekkert fyrir. Auðveldara væri að efla traust á hagkerfinu þegar búið væri að skrifa froðueignir niður.

Skiptigengisleiðin væri vissulega róttæk en hún væri líka skynsamleg og leysti vandann. Hún krefðist hinsvegar kjarkmikilla stjórnvalda sem bæru þjóðarhag fyrir brjósti.

Guðmundur Steingrímsson utan þingflokka, sagðist hafa efasemdir um skiptigengisleið, hún myndi rýra traust á hagkerfinu og líkti henni við kennitöluflakk. Hann taldi vænlegast að láta reyna á það hvort aðild að myntbandalagi ESB myndi leysa vandann.

Pétur Blöndal Sjálfstæðisflokki taldi það vera hlutverk stjórnvalda að semja við eigendur króna um útgöngu þeirra. Það væru hagsmunir krónueigenda að atvinnulíf landsins væri öflugt, að því leyti færu hagsmunir okkar og þeirra saman.

Af ofangreindum tilsvörum og ummælum þingmanna má ráða að þeir eru einhuga um að ekki megi velta umræddri snjóhengju yfir á ríkissjóð eða almenning í landinu, þótt þá greini vissulega á um hvaða leiðir séu vænlegastar.

Fram kom að ríkisstjórn hefur ekki látið vinna úttekt á öllum þeim kostum sem eru fyrir hendi ásamt greiningu á kostum og göllum mismunandi leiða. Einhverjar nefndir og samráðshópar munu vera í gangi en þær hafa ekki skilað niðurstöðum um alla valkosti.

Höfundur: Frosti Sigurjónsson  http://mbl.is/vidskipti/pistlar/frostisig/1238386/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Gæti einhver vinsamlega útskýrt það fyrir mér hvað skuldir einkaaðila við aðra einkaaðila komi ríkissjóð og skattgreiðendum við?

Hörður Þórðarson, 6.5.2012 kl. 20:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband