Varúð, stórgrýtt framundan!

Það er stutt í prófkjör flokkanna, möguleg forystuskipti og svo alþingiskosningar í kjölfarið.  Það er spenna í loftinu, fólk er orðið þreytt á íslenskum stjórnmálum og vill fara að horfa upp á alþingi sem getur unnið saman í hæfilegum frið og ró.  Það er líka komið prófkjörslykt af mörgum og leitin stendur sem hæst að heppilegum kandidötum.  Núverandi stjórnvöld keppast við að benda okkur á jákvæð teikn í hagkerfinu, minnkandi atvinnuleysi, allt á blússandi uppleið og þau eru það besta sem hefur komið fyrir þessa þjóð!  Aðrir tala um gjaldþrota lífeyriskerfi, bresti í fjármálakerfinu, ríkið á hausnum, hrunið heilbrigðiskerfi, allt í sama farinu og sömu teikn á lofti og rétt fyrir hrun.  Leppar og leynifélög í algleymingi í viðskiptalífinu.  Vantraustið er orðið algjört bæði á viðskiptalífi og stjórnmálum og því situr allt fast í hjólförunum.  Um 10% þjóðarinnar treystir alþingi sem hlýtur að vera Íslandsmet!   Sama alþingi er síðan gáttað yfir því að meirihluti hafi kosið Ólaf Ragnar áfram sem forseta!  Er nema furða þótt venjulegt fólk sé orðið þreytt og ruglað.  Það ætti engum að dyljast þau veðrabrigði sem eru að verða í fjármálakerfi heimsins, ekki bara í Evrópu heldur Bandaríkjunum og ekki síst bullandi samdráttur í Kína, stærsta hagkerfi heims.  Samdráttur á heimsvísu hefur bein áhrif á útflutning frá Íslandi, eðlilega, nema við finnum stórkostlega markaði annars staðar sem bæta þetta upp. 

En aftur að prófkjörum, kosningum og gjaldþrota alþingi.  Við skulum öll muna að við berum ábyrgð sem kjósendur.  Fólk „lendir“ ekki inni á þingi og flokkar eru ekki svo „heppnir“ að ná kjöri.  Það erum við kjósendur sem veljum fólkið á listana og síðan kjósum við þann flokk sem endurspeglar þá hugmyndafræði sem okkur hugnast best.   Við erum sem betur fer ekki öll eins og þess vegna höfum við fleiri en einn flokk.  Prófkjör eru ekki fegurðarsamkeppni.  Þau eru eina leið okkar til að hafa áhrif á það hverjir setjast á alþingi fyrir hönd flokkanna.  Við berum því ábyrgð á því hverjir setjast á þing og hverja við veljum til að gæta hagsmuna okkar.   Ef við nennum ekki að standa í þessu eða hunsum að kjósa í prófkjörum þá verðum við líka að eiga það við sjálf okkur að hafa ekki áhrif og hugsanlega enginn gæti hagsmuna okkar þegar upp er staðið.  Fjölmiðlar bera líka mikla ábyrgð þegar kemur að því að upplýsa.

Samfylking hefur fyrst flokka tilkynnt að prófkjör flokksins fari fram í október/nóvember n.k.  Flott hjá þeim.  Engin tilkynning hefur komið frá öðrum flokkum ennþá.    Það er ljóst að ESB og Icesave mun hafa áhrif á val margra.  Fólk í flokkunum er klofið þegar kemur að afstöðu sinni til þessara mála þrátt fyrir að vera jafnvel sammála um margt annað.  Kannski má segja að flokkarnir standi á tímamótum einmitt vegna þess að þeir eru klofnir í þessum stóru málum sem ekki verður litið fram hjá.   Reykás-sindromið gæti orðið mörgum erfitt og óhætt að vara við stórgrýti framundan!

Heillavænlegast fyrir alla væri auðvitað að leggja aðildarumsóknina að ESB til hliðar eins og landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins kveður á um.  Einbeita sér að því að koma með trúverðuga peningamálastefnu og taka á málum hér heima fyrir af festu og öryggi og umfram allt, trúverðugleika.  Sú staðreynd að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra er að gera fríverslunarsamning við Kína, leiðir hugann að því, að meira að segja hann sjálfur sé að missa trúna á aðildarferlinu og umsókninni að ESB. 

Getur það verið! 

Höfundur: Vilborg G. Hansen http://villagunn.blog.is/blog/villagunn/entry/1249354/ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örn Ægir Reynisson

Þú talar um ábyrgð kjósenda! Þeir eru varnarlausir þegar logið er að þeim fyrir kosningar til að komast í valdastöður og síðan loforðin svikin algjörlega og þegar forystur stjórnmálaflokku fylgja ekki eftir samþykktum flokka sinna!

Örn Ægir Reynisson, 16.7.2012 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband