Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Losun hafta: Þrotabú bankanna greiði alfarið í ISK

frostisigurjons

Ekki er ljóst hvort þrotabú gömlu bankanna greiða kröfuhöfum út í blöndu af gjaldmiðlum og krónum, eða eingöngu krónum. Greiði þrotabúin alfarið út í krónum gefur það Seðlabanka einstakt tækifæri til að leysa gjaldeyrishöftin, um leið og dregið er úr hættu á því að kröfuhöfum þrotabúa verði mismunað.

Slitastjórnum þrotabúa ber samkvæmt lögum að gera upp allar kröfur í íslenskum krónum. Venjulega fara greiðslur einnig út í krónum, enda dregur það úr líkum á mismunun á milli kröfuhafa vegna gengisbreytinga sem orðið geta á útgreiðslutímabilinu. Þetta skiptir máli því kröfuhöfum verður ekki greitt út á sama tíma. Við þetta bætist að íslenskir kröfuhafar eru skilaskyldir á gjaldeyri en ekki erlendir sem eykur á mismunun verði greitt út í gjaldmiðlum.

Lög gera reyndar ráð fyrir því að útgreiðslur úr þrotabúum séu bundnar höftum, sem þýðir að erlendir kröfuhafar geta ekki tekið þann gjaldeyri úr landi sem þeir fá hjá þrotabúum. Seðlabankinn er að vinna að reglum um þetta og ekki víst hver útkoman verður. Best væri samt að búin greiddu alfarið í krónum.

Þrotabúin eiga líklega ígildi kr 1700 milljarða í erlendum eignum en kr 1000 milljarða í innlendum eignum (nokkur óvissa um raunstærðir). Greiði búin alfarið út í krónum þyrftu þau að kaupa krónurnar af Seðlabankanum og greiða fyrir þær með 1700 milljörðum í gjaldeyri. Kröfuhafar væru þá allir í sömu aðstöðu með krónur í höndum. Tækifærið felst í því að ef Seðlabankinn fær andvirði 1700 milljarða í gjaldeyri þá er hann kominn í aðstöðu til að grynnka verulega á gjaldeyrishöftum með stóru uppboði.

Ef sem dæmi 2000 milljarða vilja fara úr landi þá yrðu afföllin í slíku uppboði um 15% frá núverandi gengi. Þeim sem ekki vildu flytja fé sitt úr landi með þeim affölum sem byðust í uppboðinu væri heimilt að færa fjármagn úr landi síðar, en greiða þá útgönguskatt til ríkisins. Skatturinn yrði í fyrstu t.d. 5% hærri en afföllin í útboðinu til að hvetja menn til að taka þátt í útboðinu. Útgönguskatturinn væri þá 20% í upphafi en færi svo lækkandi mánaðarlega. Hraði lækkunar gæti svo ráðist af útstreymi, ef það væri lítið mætti lækka útgönguskattinn hraðar. Þannig væru höftin brátt úr sögunni með lágmarks kostnaði fyrir ríkið og skattgreiðendur.

Það má vissulega sjá fyrir sér ýmsar aðrar útfærslur á losun hafta, en það er samt algert lykilatriði að þrotabúin greiði kröfuhöfum sínum í krónum til að lágmarka mismunun kröfuhafa og færa Seðlabanka það tækifæri að bjóða upp gjaldeyri þrotabúanna. Það má ekki gleymast að “snjóhengjan” svokallaða, sem nú kallar á höft, varð til í gömlu bönkunum sem slitastjórnir eru nú að skipta á milli kröfuhafa. Snjóhengjan hefur á vissan hátt verið slitin úr samhengi við þrotabúin og sett á herðar almennings í landinu.

Það er ekki of seint að afstýra því óréttlæti að almenningur borgi höftin. En þá verður að tryggja að þrotabúin greiði kröfuhöfum alfarið út í krónum og Seðlabankinn fái gjaldeyri þrotabúana til að leysa þjóðina úr gjaldeyrishöftum.

Höfundur: Frosti Sigurjónsson http://mbl.is/vidskipti/pistlar/frostisig/1250825/ 


Vond fjárfesting á versta tíma

Einhverjir þingmenn og örfáir vinir þeirra hafa þá lífskoðun að það taki heilum níu mínútum of langan tíma að aka Víkurskarð. Þrátt fyrir að leitun sé að fallegra útsýni en ber fyrir augu í þessar níu mínútur, eru þessir menn ekki ánægðir og vilja aka um jarðgöng hvað sem þau kosta.

Samgöngubætur geta vissulega verið mjög arðbærar en þá aðeins ef tilkostnaðurinn er minni en ávinningurinn. Vaðlaheiðargöng munu kosta níu milljarða að minnsta kosti en munu aðeins spara ökumönnum níu mínútur og vegegerðinni einhvern snjómokstur nokkra daga á ári.

Til að sýna fram á hagkvæmni af göngunum hafa menn gefið sér afar lítinn fjármagnskostnað (3,7%) þótt enginn fjárfestir hafi reynst tilbúinn til að veita lán til verksins á slíkum kjörum. Ætluð arðsemi byggir líka á þeirri óvissu forsendu að meira en 90% ökumanna kjósi fremur að borga gjald fyrir að aka um dimm og daunill jarðgöng en að njóta eins besta útsýnis sem gefst.

Grísku bókhaldi er beitt til að láta sem framkvæmdin sé í raun einkaframkvæmd. Eigið fé verður samt ekki nema 7% og verkefnið fjármagnað að mestu með láni sem ríkið útvegar eða ábyrgist. Það er því augljóst að lítið má út af bregða til að framkvæmdin lendi í fangi ríkisins.

Þegar kemur að ríkisútgjöldum og forgangsröðun verkefna hjá skuldugri þjóð þá er vandséð að það sé skynsamleg ráðstöfun að leggja núna stórfé í jarðgöng sem spara 9 mínútur. Slík ákvörðun er einmitt til þess fallinn að auka á vanda þjóðarinnar sem er ærinn fyrir.

Valið stendur ekki bara á milli jarðgangna um Vaðlaheiði eða brýnni vegabóta einhverstaðar annarstaðar. Valið stendur í raun um hvort skera skuli skuli enn frekar niður í nauðsynlegri þjónustu við veikt fólk, gamalmenni og börn. Þingmenn sem kjósa með göngum eru að kolfalla á prófinu um forgangsröðun í þágu almannahagsmuna.

Það sem verra er, þessi jarðgöng verða ekki gerð með íslensku hráefni og vinnuafli. Megnið af kostnaði verður í gjaldeyri til að kaupa inn olíu, járn, steypu, þekkingu og bortæki. Vissulega skapast einhver störf fyrir íslensk verktakafyrirtæki en mjög fá störf til framtíðar og óverulegar gjaldeyristekjur til framtíðar.

Vonandi hefur þjóðin einn góðan veðurdag efni á því að kaupa sér göng um Vaðlaheiði, en sá tími er alls ekki kominn. Sú bjarta framtíð mun tefjast til muna ef stjórnvöld velja núna að steypa þjóðinni í enn meiri skuldir til að setja fé í óarðbært gæluverkefni.

Höfundur:  Frosti Sigurjónsson http://mbl.is/vidskipti/pistlar/frostisig/1244953/  


Afnám hafta: Umræður á Alþingi

Afnám gjaldeyrishafta er afar mikilvægt úrlausnarefni stjórnvalda sem hefur verið furðu lítið rætt í Alþingi. Svo bar þó við að málið komst á dagskrá að 3. maí síðastliðinn að frumkvæði Lilju Mósesdóttur. Hér verður stiklað á því helsta sem fram kom í þeirri umræðu. 

Lilja Mósesdóttir lýsti því í stuttri framsögu hvernig 1.000 milljarða krónueignir valdi erfiðleikum við afnám hafta. Þessar krónueignir séu skuldir einkaðila við aðra einkaaðila og þær haldi nú áfram að vaxa þar sem nýleg lög banni að flytja verðbætur út fyrir höft. Lilja taldi raunverulega hættu á að þessum skuldum yrði velt yfir á ríkissjóð eða skattgreiðendur. Lilja benti á tvær leiðir sem gætu leitt til þess:

Í fyrsta lagi svokallaða harðindaleið þar sem höftin væru einfaldlega afnumin og afleiðingin gengishrun krónu. Lilja varaði við því að sú leið myndi strax leiða til verri lífskjara. (væntanlega vegna hækkunar verðlags og skulda).

Í öðru lagi svonefnda skuldsetningarleið til dæmis með upptöku evru og láni frá seðlabanka Evrópu til að hleypa kröfuhöfum úr landi, eða með láni frá krónueigendum sem fengju að kaupa erlend ríkisskuldabréf fyrir krónur. Með skuldsetningarleið væri byrðunum einnig velt yfir á almenna skattborgara þótt áhrifin kæmu seinna fram.

Sú lausn sem Lilja mælti með er svokölluð skiptigengisleið með upptöku nýrrar krónu. Kröfuhafar fengju að skipta gömlum krónum yfir í nýjar með afföllum. Lilja bendir á að með því sé hægt að taka strax á þeim vanda að vissar krónukröfur séu allt of hátt metnar (hún nefndi þær froðueignir). Aflandskrónur hafi gömlu bankarnir búið til með peningaprentun og þær hafi síðar verið keyptar á hrakvirði af vogunarsjóðum. (Með skiptigengisleið lendir tapið á þeim sem tóku áhættu en almenningi er hlíft)

Lilja taldi jafnframt að útboðsleið Seðlabankans hafi valdið vonbrigðum og gangi of hægt til að geta leyst höftin á fáum árum. Hún taldi brýnt að hefja vinnu til að fyrirbyggja að snjóhengju verði breytt í skuldir skattgreiðenda og ítrekaði að staðan væri mjög alvarleg. Miklir hagsmunir í húfi og þjóðin þyrfti að spyrna við fótum, eins og í Icesave málinu, ella blasti við dökk framtíðarsýn þar sem velferðarkerfið yrði eyðilagt í þágu fjármagnseigenda.

Steingrímur J Sigfússon, VG varð fyrstur fyrir svörum í hlutverki Efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann kallaði eftir yfirvegaðri umræðu og taldi verkefnið viðráðanlegt þótt það tæki tíma. Hann tók undir það sjónarmið Lilju að ekki mætti leysa höftin með því að velta vandanum yfir á ríkið eða skattgreiðendur. Enda væru umræddar krónueignir fyrst og fremst skuldir einkaaðila.

Steingrímur taldi fjárfestingarleiðútgöngugjald og skuldabréfaskipti geta nýst til að afnema höftin án þess að raska stöðugleika í fjármálakerfinu. Ætlunin væri að láta reyna á í útboðum hversu lök kjör menn vildu sætta sig við til að komast út. Það yrði viss niðurskrift í gegnum útboðin.

Steingrímur tók fram að hluti krónueignanna væri laus, hluti bundinn í skuldabréfum eða öðrum eignum og óvíst hve hratt eigendur vildu og gætu fara með þær úr landi. Hægt væri að hindra að útstreymið yrði of hratt (útgönguskattur?).

Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisflokki, tók undir að allir kostir væru kannaðir. Hann lýsti þó efasemdum um að taka upp nýja krónu ef ætlunin væri að láta þá brenna inni sem eiga krónueignir, það taldi hann valda tjóni til framtíðar. Bjarni sagði stjórnvöld hafa aukið vandann með því að hrekja frá erlenda fjárfesta sem hefðu getað aukið gjaldeyrisflæði inn í landið. Að lokum benti hann á að gjaldmiðilsmálin væru svo mikið undirstöðuatriði að brýnt væri að ná þverpólitískri sátt um þau.

Árni Páll Árnason Samfylkingu lýsti efasemdum um upptöku nýrrar krónu til að leysa höftin. Hann vill kanna útfærslu á skuldabréfaútgáfum (ríkissjóðs?) til að ná fram afslætti og létta á höftum. Hann tók líka fram að aðgerðir mættu ekki leiða til skuldsetningar ríkissjóðs og almennings.

Sigurður Ingi Jóhannsson Framsóknarflokki, benti á að það þyrfti að flýta losun hafta en það væri mun erfiðara á meðan ráðherrar Samfylkingar töluðu gjaldmiðilinn niður. Hann taldi að nota þyrfti allar þrjár leiðirnar (fjárfestingarleið, skuldbreytingarleið og útgönguskatt) til að losa höftin en gæta þess að færa ekki vandann yfir á ríkissjóð eða almenning. Hann benti líka á mikilvægi þess að auka afgang af vöruviðskiptum við útlönd og kallaði eftir skýrri stefnu ríkisstjórnar um slíkt markmið.

Þór Saari Hreyfingunni, tók fram að sú leið sem Seðlabanki, AGS og ríkisstjórnin væru að fara virkaði ekki. Hann taldi mjög alvarlegt ábyrgðarleysi af ríkisstjórn að vera ekki löngu búin að láta sérfræðinga skoða allar leiðir til afnáms hafta. Þór taldi að skiptigengisleiðin hefði marga kosti og tók undir sjónarmið Lilju að froðueignir þyrfti að viðurkenna sem slíkar. Þór var því ekki sammála að niðurskrift froðueigna myndi draga úr trausti á hagkerfið því það væri lítið sem ekkert fyrir. Auðveldara væri að efla traust á hagkerfinu þegar búið væri að skrifa froðueignir niður.

Skiptigengisleiðin væri vissulega róttæk en hún væri líka skynsamleg og leysti vandann. Hún krefðist hinsvegar kjarkmikilla stjórnvalda sem bæru þjóðarhag fyrir brjósti.

Guðmundur Steingrímsson utan þingflokka, sagðist hafa efasemdir um skiptigengisleið, hún myndi rýra traust á hagkerfinu og líkti henni við kennitöluflakk. Hann taldi vænlegast að láta reyna á það hvort aðild að myntbandalagi ESB myndi leysa vandann.

Pétur Blöndal Sjálfstæðisflokki taldi það vera hlutverk stjórnvalda að semja við eigendur króna um útgöngu þeirra. Það væru hagsmunir krónueigenda að atvinnulíf landsins væri öflugt, að því leyti færu hagsmunir okkar og þeirra saman.

Af ofangreindum tilsvörum og ummælum þingmanna má ráða að þeir eru einhuga um að ekki megi velta umræddri snjóhengju yfir á ríkissjóð eða almenning í landinu, þótt þá greini vissulega á um hvaða leiðir séu vænlegastar.

Fram kom að ríkisstjórn hefur ekki látið vinna úttekt á öllum þeim kostum sem eru fyrir hendi ásamt greiningu á kostum og göllum mismunandi leiða. Einhverjar nefndir og samráðshópar munu vera í gangi en þær hafa ekki skilað niðurstöðum um alla valkosti.

Höfundur: Frosti Sigurjónsson  http://mbl.is/vidskipti/pistlar/frostisig/1238386/


Grynnri og styttri kreppur takk

Fjármálakreppur eru býsna algengar. Um 100 lönd hafa gengið gegnum fjármála- eða gjaldmiðilskreppu á undanförnum 40 árum. Því miður bendir fátt til þess að slíkar kreppur séu úr sögunni. Það mætti vissulega gera ýmislegt til að minnka líkur á kreppum, en í þessum pistli verður hins vegar rætt um hugmynd þeirra Markus Miller’s og Joseph Stiglitz um hvernig megi draga úr því tjóni sem kreppum fylgir.

Við venjulegar aðstæður er ólíklegt að vel rekin fyrirtæki lendi í gjaldþroti. En þegar efnahagsáfall dynur yfir geta tugir þúsunda aðila lent í vanskilum samtímis óháð því hvernig staðið var að rekstrinum. Gjaldþrotaleiðin er dýr og tekur langan tíma að ljúka hverju búi. Sé sú leið farin með stóran hluta atvinnulífsins, getur það í sjálfu sér leitt til keðjuverkana, þannig að enn fleiri fyrirtæki fari á hausinn, atvinnuleysi verði enn meira og kreppuaástand vari mun lengur. Því má halda fram að þannig tapi kröfuhafar mun meiru en ef þeir hefðu strax gefið afslátt af kröfum sínum og þannig haldið sem flestum fyrirtækjum í rekstri.

Hugmynd Miller’s og Stiglitz gengur einmitt út á setja í lög ákvæði um hálf-sjálfvirka lækkun allra skulda ef gjaldmiðill lands fellur umfram viss mörk. Þeir hafa sýnt framá að slík almenn skuldalækkun fækki mjög þeim fyrirtækjum sem fara í þrot, hagkerfið nái sér þannig fyrr eftir áfallið og kröfuhafar fái þegar upp er staðið meira upp í kröfur.

Þeir Miller og Stiglitz segja lítið um hvernig eigi að útfæra slíka löggjöf. Væntanlega þyrfti að ákveða hve mikið gjaldmiðill þyrfti að falla, eða þjóðartekjur að dragast saman, til að vera til að virkja ákvæði um lækkun skulda. Einnig þyrfti að tilgreina hvað skuldir myndu lækka mikið við tiltekið fall og fleira í þeim dúr. 

Miller og Stiglits kynntu þessa hugmynd fyrst árið 1998. Það hefði án efa verið til bóta ef þannig ákvæði hefði verið til staðar í hruninu 2008, það hefði dregið úr gjaldþrotum og atvinnuleysi. Lærum nú af reynslunni og setjum hér lög um sjálfvirka skuldaleiðréttingu í tæka tíð fyrir næstu kreppu.

Heimild:

Bankruptcy protection against macroeconomic shocks: the case for a “super Chapter 11” Marcus Miller, University of Warwick and Joseph Stiglitz World Bank Revised December 1999

http://url.is/5su

Höfundur: Frosti Sigurjónsson http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/frostisig/1234214/  


Snýst um gengi gjaldmiðla

Ég skrifaði í gær um verðlagið í Svíþjóð og frétt Ríkisútvarpsins um að Norðmenn flykktust þangað til þess að verzla og væru þannig að kjósa Evrópusambandið með fótunum en ólíkt Svíum eru frændur okkar Norðmenn ekki þar innaborðs.

Eins og ég benti á verður að setja alla umræðu um verðlag í löndum í samhengi við kaupmátt fólks. Á sama tíma og Norðmenn fara til að verzla ódýrar í Svíþjóð hópast Svíar til Noregs til þess að fá vinnu og betri laun en í heimalandinu.

En fólksflutningarnir eru fleiri. Þannig hafa Danir um árabil einnig hópast til Svíþjóðar til þess að verzla ódýrar en heimafyrir. Danmörk er eins og Svíþjóð í Evrópusambandinu en danska krónan er hins vegar beintengd við gengi evrunnar ólíkt þeirri sænsku.

Sé framsetning Ríkisútvarpsins yfirfærð á Dani hlýtur sú ályktun að vera dregin að þeir séu með verzlunarferðum sínum til Svíþjóðar að kjósa með fótunum og lýsa yfir óánægju sinni með tengingu dönsku krónunnar við evruna.

Málið snýst fyrst og fremst um gengi gjaldmiðla. Á meðan sænska krónan hefur lækkað og þar með gert sænskar vörur samkeppnishæfari hefur gengi norsku krónunnar hækkað. Danska krónan hefur á sama tíma haldist tiltölulega há vegna tengingarinnar við evruna.

Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1233540/ 


Gjaldmiðill gulli betri

Eitt mikilvægasta verkefni sem stjórnvöld geta annast fyrir landsmenn er að halda úti traustum gjaldmiðli. Sjálfstæður og vel rekinn gjaldmiðill sem tekur mið af þörfum hagkerfisins á hverjum tíma getur aukið hagvöxt og lífsgæði í landinu verulega umfram það sem mögulegt væri ef hér væri notuð erlend mynt.

 

Til mikils að vinna 
Þótt hér hafi orðið bankahrun og krónan bæði ofrisið og hrunið þá má ekki missa móðinn. Allt of margir vilja bara gefast upp. Ísland er ekki eina þjóðin sem hefur fengið skell. Norðmenn og Svíar lentu í bankakreppum á níunda áratugnum en hafa þrátt fyrir það náð góðum árangri í kjölfarið. Það getum við einnig og það ætti að vera okkar staðfasta markmið. Þrátt fyrir alls kyns mistök hafa lífsgæði landsmanna tekið ótrúlegum framförum. Ísland var eitt fátækasta land Evrópu fyrir rúmum mannsaldri síðan. Í dag, jafnvel eftir efnahagshrun, eru fá lönd sem geta státað af jafn góðum lífskjörum og Ísland. Vera má að dönsk króna hafi haldið verðgildi sínu 2.000 sinnum betur en krónan okkar, en trúir því einhver að hér væru lífskjör 2.000 sinnum betri ef hér hefði verið dönsk króna? Það mætti frekar spyrja hvort framfarir hefðu ekki einmitt verið hægari ef hér hefði verið erlend mynt í stað sjálfstæðrar krónu?

 

 

Atvinnuleysi hefði verið meira  
Það er óumdeilt að fastgengi leiðir til hærra atvinnuleysis. Ástæðan er sú að það getur tekið nokkur ár að lækka laun í niðursveiflu en það tekur ekki nema einn dag að lækka þau með gengisfellingu. Of há laun leiða til uppsagna eða gjaldþrota. Atvinnulaust fólk skapar engin verðmæti og það sem verra er, þeir sem hafa vinnu verða að borga hærri skatta til að greiða atvinnuleysisbætur. Krónan hefur oft fallið sem er vissulega slæmt en allir höfðu samt vinnu og hagsæld landsmanna jókst jafnt og þétt. Aukið atvinnuleysi hefði örugglega tafið framfarirnar.

 

 

Samdráttarskeið hefðu orðið dýpri og lengri 
Hagkerfi sem býr við fastgengi getur ekki brugðist við niðursveiflu með því að lækka gengi myntarinnar. Fjármagn streymir þá yfirleitt úr landi og til þeirra landa þar sem betur árar og betri ávöxtun býðst. Afleiðingin er enn sárari skortur á fjármagni til framkvæmda einmitt þegar mest ríður á að auka atvinnu. Lengri samdráttarskeið hefðu án efa dregið úr langtímahagvexti.

 

 

Myntsláttuhagnaður hefði runnið úr landi 
Myntsláttuhagnaður rennur til þess seðlabanka/ríkis sem gefur út gjaldmiðillinn. Myntsláttuhagnaður verður til þegar peningamagn er aukið til að mæta vexti hagkerfisins eða til að veikja gengið. Hér hefur hagkerfið iðnvæðst og margfaldast að stærð á einum mannsaldri. Íbúafjöldi landsins hefur líka margfaldast. Hér var þessu mætt með því að framleiða fleiri krónur. Án krónu hefði Ísland þurft að kaupa og flytja inn mikið magn af erlendri mynt til að auka peningamagn í umferð. Magnið samtals væri líklega nálægt grunnfé Seðlabankans í dag eða um 90 milljarðar. Það hefði því ekki verið hægt að fjárfesta jafn mikið í innviðum og framleiðslutækjum ef myntsláttuhagnaður hefði runnið úr landi í öll þessi ár.

 

 

Truflanir frá erlendu myntinni 
Erlenda myntin hefði tekið mið af aðstæðum í útgáfulandinu. Uppsveifla í því landi hefði getað leitt til hærra vaxtastigs en Íslenska hagkerfið hefði þolað. Afleiðingin hefði getað verið gjaldþrot og minni framkvæmdir og verkefni en ella. Hagvöxtur hefði því tafist. En stundum hefðu vextir verið of lágir fyrir Ísland og það leitt til offjárfestingar, jafnvel í óarðbærum verkefnum. Þessar utanaðkomandi sveiflur hefðu verið sem steinar í götu íslenska hagkerfisins og hægt á framförunum. Vonandi er ljóst af þessum dæmum að þrátt fyrir allt hefur krónan verið nauðsynlegt til að koma þjóðinni úr hópi fátækustu þjóða Evrópu í hóp þeirra ríkustu. Hún getur haldið áfram að þjóna landsmönnum um ókomin ár. Vissulega mætti tína til einhverja smávægilega ókosti og kostnaðarliði við að hafa sjálfstæða mynt. Um þessa hluti er mikið skrifað þessa dagana og best að vísa áhugasömum á þau skrif. En tilgangurinn með þessum pistli er að benda á nokkra af kostunum við að hafa sjálfstæða mynt.

 

Höfundur: Frosti Sigurjónsson http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/frostisig/1233154/ 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband