Færsluflokkur: Evrópumál

Færi aldrei fyrir dómstóla?

Einhverjir sem studdu Icesave III samningana og jafnvel samningana sem gerðir voru á undan þeim hafa að undanförnu viljað meina að andstæðingar samninganna hafi haldið því fram í aðdraganda þjóðaratkvæðisins fyrir ári að Icesave-málið færi aldrei fyrir dómstóla ef samningunum yrði hafnað.

Þetta er þó ekki rétt. Það var einmitt kallað eftir því af þeim að farin yrði svonefnd dómstólaleið. Allajafna var ekki gert ráð fyrir öðru en að málið færi þá leið yrði samningunum hafnað og þá ekki sízt í ljósi þess að Eftirlitsstofnun EFTA hafði þegar hótað málssókn fyrir EFTA-dómstólnum.

Hins vegar var því haldið fram að ef niðurstaðan fyrir EFTA-dómstólnum yrði Íslendingum óhagstæð þá væri afar ólíklegt að Bretar og Hollendingar létu af því verða að fara í skaðabótamál gegn íslenzka ríkinu sem reka þyrfti fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem er varnarþing ríkisins.

Það eru þessi tvö dómsmál sem einhverjir hafa verið að rugla saman.

Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson  http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1233971/#comments 

Ögmundur við ætlum EKKI á hnén. ESB umsókninni er sjálfhætt.

Ögmundur Jónasson spyr hvort við ætlum á hnén?  Nei við ætlum ekki á hnén, en því miður eru samstarfmenn hans í ríkisstjórn á því að við eigum að fara á hnén.  Þeir eru margir löngu komnir á hnén og líkar það vel að virðist vera.  Þeir hafa einhverja aðra sýn sem þeim líkar svo vel!  Nú þarf Ögmundur að standa í lappirnar og framkvæma það sem hugurinn og hjartað segir honum að gera.  Ekkert er merkilegra en að standa með þjóð sinni og sjálfstæði hennar þegar á reynir.  Ólafur Ragnar gerði það í Icesavemálinu og uppskar fyrirgefningu hverra þeirra synda sem hann átti að hafa gert.  Í þessu máli er ekkert sem heitir að ná saman um stríðandi fylkingar.  Finna lausn sem allir geta sætt sig við.  Þetta er ekki flóknara en að annars vegar erum við að ganga í ESB og hins vegar viljum við það ekki, sama hvað samningurinn segir.  Stjórnmálamenn þurfa að taka hreina afstöðu í þessu máli og hætta að skýla sér á bak við loðin orð til að hanga lengur í embætti.  Þjóðin var ekki spurð hvort hún vildi í þessar viðræður heldur var umsókninni lætt í gegnum alþingi í krafti meirihluta fólks sem kaus samkvæmt sannfæringu sinni, ekki stefnu flokks síns.  Trúlega voru og eru margir enn í vitlausum flokkum!  Óneitanlega kemur persónukjör upp í hugann og hvort það væri ekki heiðarlegra!  Þá vissum við alla vega fyrir hvað fólk stendur, því ekki stoðar lengur að lesa stefnu flokkanna og treysta því að flokksmenn velji frambjóðendur fari að vilja þeirra! 

Það eina rétta í stöðunni nú er að afturkalla umsóknina með tilkynningu frá stjórnvöldum. Það má þess vegna leggja hana til hliðar þar til úr Icesave málinu verður skorið.  En heiðarlegast af öllu væri að þakka bara pent fyrir okkur, og segja nei takk, þetta hentar okkur ekki að sinni.  Snúa okkur hér að uppbyggingu, atvinnusköpun og frelsi fólks til athafna og nýsköpunar.  Nóg er af tækifærum það þarf miklu frekar að virkja fólk til þess að þora af stað með hugmyndir sínar og grípa tækifærin í því árferði sem nú ríkir.  Óvissa er ekki góð fyrir neinn rekstur hvorki fyrirtæki né heimili.  Heimilin geta ekki verið án fyrirtækjanna og öfugt.  Ríkið getur heldur ekki verið án fyrirtækjanna og heimilanna.  

Þetta er það Ísland sem við þekkjum og við viljum bara fá að njóta þess aftur og halda áfram að búa hér á þessu fallega náttúru Fróni.

Við eigum gnægtir af öllu, bara ef við kunnum að fara með þessar gnægtir og nýta þær skynsamlega en ekki í skyndigróða andartaksins.

Höfundur: Vilborg G Hansen 


mbl.is Segir ESB vilja Íslendinga niður á hnén
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matvælaverðið í Svíþjóð

 

"Munur á matarverði milli Noregs og Svíþjóðar hefur aukist stöðugt frá því Svíar gengu í Evrópusambandið fyrir 18 árum. Nú fyllyrða kaupmenn að þeir geti selt mat, til dæmis nautakjöt, á hálfvirði miðað við verð í Noregi. Oft munar þó þriðjungi. Því er sagt að þeir sem sögðu nei við aðild Noregs að sambandinu fyrir 18 árum kjósi nú með fótunum og taki sér stöðu við búðarkassana innan sænsku landamæranna."

Þessi texti er fenginn úr frétt sem birtist á vef Ríkisútvarpsins í gær. Ég hef aðeins verið að skoða þá umræðu sem hefur verið um hana á netinu og réttilega hafa ýmsir bent á að á sama tíma hópist Svíar til Noregs í vinnu. Bæði sé atvinnuleysi minna í Noregi og launin allajafna mun hærri.

Hvað fæst fyrir launin?

Það sem gleymist gjarnan að taka inn í myndina þegar verðlag er borið saman á milli landa (að því gefnu að um sambærilegar vörur sé að ræða sem allur gangur er víst á) er kaupmátturinn. Neytendur græða lítið á lágu verðlagi ef þeir geta lítið sem ekkert keypt fyrir launin sín.

Þannig má nefna að þegar íslenzkt verðlag var hér á árum áður borið saman við það sem gerðist annars staðar í Evrópu reyndist verðlagið iðulega lægst í Búlgaríu og Rúmeníu. En það verður hins vegar að teljast ólíklegt að Íslendingar gætu sætt sig við þarlend launakjör.

Þetta tvennt helst þó gjarnan í hendur. Verðlagið er oft hærra vegna þess að kaupmátturinn er meiri. Það væri lítið gagn í því að bjóða norskt vöruverð til dæmis í Rúmeníu. Það gætu sárafáir þar í landi keypt vörur á því verðlagi. En fólk getur það í Noregi.

Verðlag svipað og í ESB

Það er reyndar athyglisvert að samanburður á verðlagi á Íslandi og annars staðar í Evrópu sé ekki lengur reglulega í fréttum hér á landi. Ástæðan er ef til vill sú að verðlag hér eftir bankahrun mun hafa verið nokkurn veginn á pari við það sem gerst hefur að meðaltali innan Evrópusambandsins.

Þess utan er það merkileg ályktun í fréttinni að Norðmenn séu að kjósa með fótunum með því að verzla í Evrópusambandsríkinu Svíþjóð. Ekki sízt í ljósi nýjustu skoðanakannana þar í landi sem sýnt hafa einungis 12-13% hlynnt inngöngu í Evrópusambandið.

Það verður ekki séð að þetta hafi neitt með pólitík að gera. Norðmenn hafa skiljanlega ekkert á móti því að borga minna fyrir vörur í Svíþjóð. En þeir vilja hins vegar líklega ekki sænskan kaupmátt eða sænskt atvinnuleysi.

Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1233328/  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband