Færsluflokkur: Kjaramál

Vond fjárfesting á versta tíma

Einhverjir þingmenn og örfáir vinir þeirra hafa þá lífskoðun að það taki heilum níu mínútum of langan tíma að aka Víkurskarð. Þrátt fyrir að leitun sé að fallegra útsýni en ber fyrir augu í þessar níu mínútur, eru þessir menn ekki ánægðir og vilja aka um jarðgöng hvað sem þau kosta.

Samgöngubætur geta vissulega verið mjög arðbærar en þá aðeins ef tilkostnaðurinn er minni en ávinningurinn. Vaðlaheiðargöng munu kosta níu milljarða að minnsta kosti en munu aðeins spara ökumönnum níu mínútur og vegegerðinni einhvern snjómokstur nokkra daga á ári.

Til að sýna fram á hagkvæmni af göngunum hafa menn gefið sér afar lítinn fjármagnskostnað (3,7%) þótt enginn fjárfestir hafi reynst tilbúinn til að veita lán til verksins á slíkum kjörum. Ætluð arðsemi byggir líka á þeirri óvissu forsendu að meira en 90% ökumanna kjósi fremur að borga gjald fyrir að aka um dimm og daunill jarðgöng en að njóta eins besta útsýnis sem gefst.

Grísku bókhaldi er beitt til að láta sem framkvæmdin sé í raun einkaframkvæmd. Eigið fé verður samt ekki nema 7% og verkefnið fjármagnað að mestu með láni sem ríkið útvegar eða ábyrgist. Það er því augljóst að lítið má út af bregða til að framkvæmdin lendi í fangi ríkisins.

Þegar kemur að ríkisútgjöldum og forgangsröðun verkefna hjá skuldugri þjóð þá er vandséð að það sé skynsamleg ráðstöfun að leggja núna stórfé í jarðgöng sem spara 9 mínútur. Slík ákvörðun er einmitt til þess fallinn að auka á vanda þjóðarinnar sem er ærinn fyrir.

Valið stendur ekki bara á milli jarðgangna um Vaðlaheiði eða brýnni vegabóta einhverstaðar annarstaðar. Valið stendur í raun um hvort skera skuli skuli enn frekar niður í nauðsynlegri þjónustu við veikt fólk, gamalmenni og börn. Þingmenn sem kjósa með göngum eru að kolfalla á prófinu um forgangsröðun í þágu almannahagsmuna.

Það sem verra er, þessi jarðgöng verða ekki gerð með íslensku hráefni og vinnuafli. Megnið af kostnaði verður í gjaldeyri til að kaupa inn olíu, járn, steypu, þekkingu og bortæki. Vissulega skapast einhver störf fyrir íslensk verktakafyrirtæki en mjög fá störf til framtíðar og óverulegar gjaldeyristekjur til framtíðar.

Vonandi hefur þjóðin einn góðan veðurdag efni á því að kaupa sér göng um Vaðlaheiði, en sá tími er alls ekki kominn. Sú bjarta framtíð mun tefjast til muna ef stjórnvöld velja núna að steypa þjóðinni í enn meiri skuldir til að setja fé í óarðbært gæluverkefni.

Höfundur:  Frosti Sigurjónsson http://mbl.is/vidskipti/pistlar/frostisig/1244953/  


Matvælaverðið í Svíþjóð

 

"Munur á matarverði milli Noregs og Svíþjóðar hefur aukist stöðugt frá því Svíar gengu í Evrópusambandið fyrir 18 árum. Nú fyllyrða kaupmenn að þeir geti selt mat, til dæmis nautakjöt, á hálfvirði miðað við verð í Noregi. Oft munar þó þriðjungi. Því er sagt að þeir sem sögðu nei við aðild Noregs að sambandinu fyrir 18 árum kjósi nú með fótunum og taki sér stöðu við búðarkassana innan sænsku landamæranna."

Þessi texti er fenginn úr frétt sem birtist á vef Ríkisútvarpsins í gær. Ég hef aðeins verið að skoða þá umræðu sem hefur verið um hana á netinu og réttilega hafa ýmsir bent á að á sama tíma hópist Svíar til Noregs í vinnu. Bæði sé atvinnuleysi minna í Noregi og launin allajafna mun hærri.

Hvað fæst fyrir launin?

Það sem gleymist gjarnan að taka inn í myndina þegar verðlag er borið saman á milli landa (að því gefnu að um sambærilegar vörur sé að ræða sem allur gangur er víst á) er kaupmátturinn. Neytendur græða lítið á lágu verðlagi ef þeir geta lítið sem ekkert keypt fyrir launin sín.

Þannig má nefna að þegar íslenzkt verðlag var hér á árum áður borið saman við það sem gerðist annars staðar í Evrópu reyndist verðlagið iðulega lægst í Búlgaríu og Rúmeníu. En það verður hins vegar að teljast ólíklegt að Íslendingar gætu sætt sig við þarlend launakjör.

Þetta tvennt helst þó gjarnan í hendur. Verðlagið er oft hærra vegna þess að kaupmátturinn er meiri. Það væri lítið gagn í því að bjóða norskt vöruverð til dæmis í Rúmeníu. Það gætu sárafáir þar í landi keypt vörur á því verðlagi. En fólk getur það í Noregi.

Verðlag svipað og í ESB

Það er reyndar athyglisvert að samanburður á verðlagi á Íslandi og annars staðar í Evrópu sé ekki lengur reglulega í fréttum hér á landi. Ástæðan er ef til vill sú að verðlag hér eftir bankahrun mun hafa verið nokkurn veginn á pari við það sem gerst hefur að meðaltali innan Evrópusambandsins.

Þess utan er það merkileg ályktun í fréttinni að Norðmenn séu að kjósa með fótunum með því að verzla í Evrópusambandsríkinu Svíþjóð. Ekki sízt í ljósi nýjustu skoðanakannana þar í landi sem sýnt hafa einungis 12-13% hlynnt inngöngu í Evrópusambandið.

Það verður ekki séð að þetta hafi neitt með pólitík að gera. Norðmenn hafa skiljanlega ekkert á móti því að borga minna fyrir vörur í Svíþjóð. En þeir vilja hins vegar líklega ekki sænskan kaupmátt eða sænskt atvinnuleysi.

Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1233328/  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband