Færsluflokkur: Dægurmál
Losun hafta: Þrotabú bankanna greiði alfarið í ISK
Mánudagur, 30. júlí 2012
Ekki er ljóst hvort þrotabú gömlu bankanna greiða kröfuhöfum út í blöndu af gjaldmiðlum og krónum, eða eingöngu krónum. Greiði þrotabúin alfarið út í krónum gefur það Seðlabanka einstakt tækifæri til að leysa gjaldeyrishöftin, um leið og dregið er úr hættu á því að kröfuhöfum þrotabúa verði mismunað.
Slitastjórnum þrotabúa ber samkvæmt lögum að gera upp allar kröfur í íslenskum krónum. Venjulega fara greiðslur einnig út í krónum, enda dregur það úr líkum á mismunun á milli kröfuhafa vegna gengisbreytinga sem orðið geta á útgreiðslutímabilinu. Þetta skiptir máli því kröfuhöfum verður ekki greitt út á sama tíma. Við þetta bætist að íslenskir kröfuhafar eru skilaskyldir á gjaldeyri en ekki erlendir sem eykur á mismunun verði greitt út í gjaldmiðlum.
Lög gera reyndar ráð fyrir því að útgreiðslur úr þrotabúum séu bundnar höftum, sem þýðir að erlendir kröfuhafar geta ekki tekið þann gjaldeyri úr landi sem þeir fá hjá þrotabúum. Seðlabankinn er að vinna að reglum um þetta og ekki víst hver útkoman verður. Best væri samt að búin greiddu alfarið í krónum.
Þrotabúin eiga líklega ígildi kr 1700 milljarða í erlendum eignum en kr 1000 milljarða í innlendum eignum (nokkur óvissa um raunstærðir). Greiði búin alfarið út í krónum þyrftu þau að kaupa krónurnar af Seðlabankanum og greiða fyrir þær með 1700 milljörðum í gjaldeyri. Kröfuhafar væru þá allir í sömu aðstöðu með krónur í höndum. Tækifærið felst í því að ef Seðlabankinn fær andvirði 1700 milljarða í gjaldeyri þá er hann kominn í aðstöðu til að grynnka verulega á gjaldeyrishöftum með stóru uppboði.
Ef sem dæmi 2000 milljarða vilja fara úr landi þá yrðu afföllin í slíku uppboði um 15% frá núverandi gengi. Þeim sem ekki vildu flytja fé sitt úr landi með þeim affölum sem byðust í uppboðinu væri heimilt að færa fjármagn úr landi síðar, en greiða þá útgönguskatt til ríkisins. Skatturinn yrði í fyrstu t.d. 5% hærri en afföllin í útboðinu til að hvetja menn til að taka þátt í útboðinu. Útgönguskatturinn væri þá 20% í upphafi en færi svo lækkandi mánaðarlega. Hraði lækkunar gæti svo ráðist af útstreymi, ef það væri lítið mætti lækka útgönguskattinn hraðar. Þannig væru höftin brátt úr sögunni með lágmarks kostnaði fyrir ríkið og skattgreiðendur.
Það má vissulega sjá fyrir sér ýmsar aðrar útfærslur á losun hafta, en það er samt algert lykilatriði að þrotabúin greiði kröfuhöfum sínum í krónum til að lágmarka mismunun kröfuhafa og færa Seðlabanka það tækifæri að bjóða upp gjaldeyri þrotabúanna. Það má ekki gleymast að snjóhengjan svokallaða, sem nú kallar á höft, varð til í gömlu bönkunum sem slitastjórnir eru nú að skipta á milli kröfuhafa. Snjóhengjan hefur á vissan hátt verið slitin úr samhengi við þrotabúin og sett á herðar almennings í landinu.
Það er ekki of seint að afstýra því óréttlæti að almenningur borgi höftin. En þá verður að tryggja að þrotabúin greiði kröfuhöfum alfarið út í krónum og Seðlabankinn fái gjaldeyri þrotabúana til að leysa þjóðina úr gjaldeyrishöftum.
Höfundur: Frosti Sigurjónsson http://mbl.is/vidskipti/pistlar/frostisig/1250825/
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Varúð, stórgrýtt framundan!
Mánudagur, 16. júlí 2012
Það er stutt í prófkjör flokkanna, möguleg forystuskipti og svo alþingiskosningar í kjölfarið. Það er spenna í loftinu, fólk er orðið þreytt á íslenskum stjórnmálum og vill fara að horfa upp á alþingi sem getur unnið saman í hæfilegum frið og ró. Það er líka komið prófkjörslykt af mörgum og leitin stendur sem hæst að heppilegum kandidötum. Núverandi stjórnvöld keppast við að benda okkur á jákvæð teikn í hagkerfinu, minnkandi atvinnuleysi, allt á blússandi uppleið og þau eru það besta sem hefur komið fyrir þessa þjóð! Aðrir tala um gjaldþrota lífeyriskerfi, bresti í fjármálakerfinu, ríkið á hausnum, hrunið heilbrigðiskerfi, allt í sama farinu og sömu teikn á lofti og rétt fyrir hrun. Leppar og leynifélög í algleymingi í viðskiptalífinu. Vantraustið er orðið algjört bæði á viðskiptalífi og stjórnmálum og því situr allt fast í hjólförunum. Um 10% þjóðarinnar treystir alþingi sem hlýtur að vera Íslandsmet! Sama alþingi er síðan gáttað yfir því að meirihluti hafi kosið Ólaf Ragnar áfram sem forseta! Er nema furða þótt venjulegt fólk sé orðið þreytt og ruglað. Það ætti engum að dyljast þau veðrabrigði sem eru að verða í fjármálakerfi heimsins, ekki bara í Evrópu heldur Bandaríkjunum og ekki síst bullandi samdráttur í Kína, stærsta hagkerfi heims. Samdráttur á heimsvísu hefur bein áhrif á útflutning frá Íslandi, eðlilega, nema við finnum stórkostlega markaði annars staðar sem bæta þetta upp.
En aftur að prófkjörum, kosningum og gjaldþrota alþingi. Við skulum öll muna að við berum ábyrgð sem kjósendur. Fólk lendir ekki inni á þingi og flokkar eru ekki svo heppnir að ná kjöri. Það erum við kjósendur sem veljum fólkið á listana og síðan kjósum við þann flokk sem endurspeglar þá hugmyndafræði sem okkur hugnast best. Við erum sem betur fer ekki öll eins og þess vegna höfum við fleiri en einn flokk. Prófkjör eru ekki fegurðarsamkeppni. Þau eru eina leið okkar til að hafa áhrif á það hverjir setjast á alþingi fyrir hönd flokkanna. Við berum því ábyrgð á því hverjir setjast á þing og hverja við veljum til að gæta hagsmuna okkar. Ef við nennum ekki að standa í þessu eða hunsum að kjósa í prófkjörum þá verðum við líka að eiga það við sjálf okkur að hafa ekki áhrif og hugsanlega enginn gæti hagsmuna okkar þegar upp er staðið. Fjölmiðlar bera líka mikla ábyrgð þegar kemur að því að upplýsa.
Samfylking hefur fyrst flokka tilkynnt að prófkjör flokksins fari fram í október/nóvember n.k. Flott hjá þeim. Engin tilkynning hefur komið frá öðrum flokkum ennþá. Það er ljóst að ESB og Icesave mun hafa áhrif á val margra. Fólk í flokkunum er klofið þegar kemur að afstöðu sinni til þessara mála þrátt fyrir að vera jafnvel sammála um margt annað. Kannski má segja að flokkarnir standi á tímamótum einmitt vegna þess að þeir eru klofnir í þessum stóru málum sem ekki verður litið fram hjá. Reykás-sindromið gæti orðið mörgum erfitt og óhætt að vara við stórgrýti framundan!
Heillavænlegast fyrir alla væri auðvitað að leggja aðildarumsóknina að ESB til hliðar eins og landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins kveður á um. Einbeita sér að því að koma með trúverðuga peningamálastefnu og taka á málum hér heima fyrir af festu og öryggi og umfram allt, trúverðugleika. Sú staðreynd að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra er að gera fríverslunarsamning við Kína, leiðir hugann að því, að meira að segja hann sjálfur sé að missa trúna á aðildarferlinu og umsókninni að ESB.
Getur það verið!
Höfundur: Vilborg G. Hansen http://villagunn.blog.is/blog/villagunn/entry/1249354/
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eru 170 einangruð ríki í heiminum?
Sunnudagur, 15. júlí 2012
Ef Ísland gengur ekki í Evrópusambandið einangrast landið. Þetta heyrist reglulega úr hópi þeirra sem styðja inngöngu Íslands í sambandið þrátt fyrir að Ísland eigi í víðfemu alþjóðlegu samstarfi meðal annars í gegnum fjölmargar alþjóðastofnanir og tvíhliða samninga og sé klárlega á meðal alþjóðavæddustu ríkja heimsins.
Hvenær varð það mælikvarði á það hvort ríki teljist einangruð hvort þau eru í Evrópusambandinu eða ekki? Það eru 27 ríki í sambandinu af þeim í kringum 200 sem fyrirfinnast í heiminum. Eru þá í kringum 170 einangruð ríki í heiminum? Er Kanada þá einangrað fyrst það stendur utan Evrópusambandsins eða Noregur svo dæmi séu tekin.
Á hinn bóginn má færa rök fyrir því að með inngöngu í Evrópusambandið yrði dregið verulega úr vægi Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Einkum þar sem mikið vald í þeim efnum, einkum til þess að gera viðskiptasamninga við önnur ríki, yrði framselt til stofnana sambandsins þar sem vægi Íslands yrði lítið og möguleikar á áhrifum eftir því.
Vert er að hafa í huga að Evrópusambandið er í grunninn tollabandalag sem sviptir ríki sín meðal annars frelsi sínu til þess að gera sjálfstæða viðskiptasamninga við ríki utan þess, meðal annars um fríverzlun. Þá hefur verið unnið leynt og ljóst að því að koma á einni sameiginlegri utanríkisstefnu sambandsins sem kæmi í staðinn fyrir sjálfstæðar utanríkisstefnur ríkjanna.
Það er nefnilega ansi hætt við því að mesta hætta Íslands hvað einangrun varðar sé þvert á móti að einangrast innan Evrópusambandsins frá sjálfstæðum samskiptum og viðskiptum frá þeim mikla fjölda ríkja sem standa utan sambandsins þar sem flest bendir til þess að framtíðarmarkaðina sé að finna frekar en í hinni hnignandi Evrópu.
Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1249291/
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)