Spyrjum fyrst, kjósum svo......

Lengi höfum við Íslendingar viljað halda í þá hefð að forsetaembættið okkar sé ópólitískt. Litið svo á að forseti vor sé sameiningartákn þjóðarinnar. Öryggisventill ef einræðistilburðir eða eitthvað það er gert á þingi sem fer gegn þjóðarhagsmunum. Ólafur Ragnar sannaði gildi sitt sem þessi öryggisventill þegar alþingi strauaði Icesave í gegnum þingið. En alveg frá því Ólafur Ragnar bauð sig fram til forseta hefur forsetaembættið í raun verið rammpólitískt, enda maðurinn mikill pólitíkus. Embættið hefur líka tekið ákveðnum breytingum. Ég tek það fram að ég er ekki á móti því að forseti beiti neitunarvaldi sínu sér í lagi þegar tugþúsundir undirskrifta berast um að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er einmitt þannig sem mér finnst að þetta eigi að virka. Hins vegar hefur minn skilningur á Stjórnarskrá okkar verið sá að ef þjóðin er sammála forsetanum um að neita lögum, þá skuli sitjandi ríkisstjórn víkja. Sviss hefur brúkað þjóðaratkvæðagreiðslur til margra ára og er ekkert sem bendir til annars en að þær virki vel ef rétt er að staðið. Við þurfum því ekkert að láta sem við séum að finna upp hjólið hér, enda erum við engir snillingar þótt margir hafi haldið það um nokkurt skeið!

Nú hafa nokkrir frambjóðendur stigið fram og vilja í embætti forseta Íslands. Eflaust munu margir reyna að telja okkur trú um að þeir séu ópólitískir og alveg lausir við alla flokkadrætti, tengsl, sérhagsmuni eða annað slíkt. Jafnvel reyna að skauta fram hjá skoðunum um inngöngu í ESB. En ef við erum einlæg og hreinskilin þá sjá þeir sem vilja opna augun að ESB málin vofa yfir þessari kosningu til embættis forseta. Þetta mál er ekki bara undirliggjandi heldur allt um kring. Alþingi samþykkti án þess að spyrja þjóðina að sækja um inngöngu i ESB. Gleymum því aldrei. Kosningarnar eru því orðnar rammpólitískar og alveg eins gott að fara út í þær og iðka þær á þeim forsendum í stað þess að villa um fyrir kjósendum á kostnað lýðræðisins. Ef upplýsingar til kjósenda eru loðnar, óljósar eða látið leggjast undir höfuð að segja frá, virkar lýðræðið ekki. Fjölmiðar verða að sjá til þess að spyrja frambjóðendur réttu spurninganna, þjarma að frambjóðendum og bakgrunnskanna, til þess að lýðræðið sé virkt. Við sem kjósendur eigum rétt á upplýsingum þótt frambjóðendur vilji ekki upplýsa. Við ættum að vera farin að átta okkur á því að SPYRJA fyrst, KJÓSA svo! Það gengur ekki lengur að fólk komi fram og segist vilja þetta og hitt, standi fyrir einhvern málstað, en fari svo og geri eitthvað allt annað og þar með stundi blekkingarleik um atkvæði fólks. Það er miklu heiðarlegra að hafa þetta uppi á borðum og kalla hlutina réttum nöfnum. Hvað er að því að vera samkvæmur sjálfum sér og fylgja sannfæringu sinni? Æji já ég gleymdi. Það skilar oftast ekki völdum nema meirihlutinn sé sammála líka! Það er lýðræði. Annað er hræsni og hroki!

Í dag þegar stjórnmálamaður eða frambjóðandi segist ætla að labba Laugarveginn, þá er maður ekkert hissa á því að hitta hann eftir kosningar úti á Granda. Jafnvel komast að því að hann gekk aldrei Laugarveginn! Slíkt náttulega gengur ekki. Ef frambjóðandi segist ætla í vestur, þá á hann ekki að fara í austur. Það eru svik við kjósendur og merki um að lýðræðið sé ekki að virka. Svona rétt eins og falið og flækt eignarhald á fyrirtækjum tengdra aðila til þess að ná meiriháttar markaðshlutdeild á kostnað neytenda. Réttar upplýsingar til kjósenda eru forsenda þess að lýðræðislegar kosningar geti farið fram og endurspegli VILJA kjósenda. Fjölmiðlar hafa því ærnu og mikilvægu hlutverk að gegna. Við sem kjósendur þurfum líka að muna að treysta ekki í blindni og spyrja fyrst, kjósa svo.

Forsetakosningar á Íslandi nú árið 2012 tæpum 4 árum eftir hrun, snúast ekki um neitt annað en pólitík. Þar sem ég persónulega er mikill ESB andstæðingur þá mun ég eðlilega EKKI kjósa neinn þann sem minnsti möguleiki er á að vilji okkur inn í ESB. Hvorki í fosetakosningum nú eða komandi prófkjörum. Aðrir hafa síðan sína skoðun á þessu máli, eðlilega. Stöndum nú einu sinni upp fyrir sjálfum okkur og vöndum okkur sem kjósendur

Höfundur: Vilborg G Hansen http://villagunn.blog.is/blog/villagunn/entry/1233168/


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband