Þjóðin og stjórnarskráin - breytum því sem sátt ríkir um.

Nú í aðdraganda forsetakosninga er eðlilegt að fólk ræði stjórnarskrána og breytingar á henni. Þrátt fyrir að ekki væri meirihluti á þingi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar meðfram forsetakosningum, þýðir það ekki, að ekki þurfi að spyrja þjóðina eins né neins. Mín tilfinning er sú að mikill hluti landsmanna vilji hafa eitthvað um þetta að segja, þó þeir telji sig ekki næga sérfræðinga til að hafa vit fyrir öllu. Þetta er ekkert einfalt! Ég persónulega er ekki áhugasöm um að blanda forsetakosningum og stjórnarkrárkosningum saman. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þetta tvennt fléttast saman ef breyta á hlutverki forseta og þings. Ég er líka hrædd við að umbylta stjórnarskráni á einu bretti. Ég er náttulega óttalegt íhald og vil engar breytingar, breytinganna vegna. Ég hins vegar styð það að margt í henni þurfi að breytast, en vanda þarf til og já það á að spyrja þjóðina. Við höfum tæknina og þurfum ekki forsetakosningar til þess. Rafrænar kosningar eru einfaldar og mun skilvirkari og fljótlegar því tölvur geta unnið úr niðurstöðum fljótt og örugglega. Það má auðveldlega finna aðra leið fyrir þá sem ekki geta tekið þátt í slíkum kosningum enda kannski um 15% kosningabærra manna eða minna að ræða.

Athyglisverð könnun var gerð í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og birt á visir.is nú 3 apríl s.l. Þarna var verið að spyrja grunndvallaspurninga um stjórnarskrána okkar. Þótt þessi spurningakönnun sé kannski ekki sú vísindalegasta og taki aðeins til þeirra sem hlusta á Reykjavík síðdegis og fara inn á visir.is til þess að svara, gefur hún mikilvægar vísbendingar. Nægilegar vísbendingar að mínu mati til þess að hér verði kostað til alvöru könnunar allra kosningabærra manna um þessi efnisatriði hjá þjóðinni til þess að leggja til grundvallar breytingum á stjórnarskráni. Það mætti meira að segja gera þetta í tvennu, jafnvel þrennu lagi til þess að sjá hvað er umdeilt og hvað ekki og spyrja svo endanlega nánar út í það sem mikill meirihluti kjósenda er sammála um að breyta. Í þessari könnun Reykjavík síðdegis er mjög afgerandi svarhlutfall þ.e. í sumum spurningum fer hlutfall yfir 70% sem verður að teljast hátt, en í öðrum liggur það á bilinu 41-59% sem er ekki eins afgerandi.

Þegar spurt er um hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að liggja til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá er munurinn lítill þ.e. 57% segja já en 43% segja nei. Þetta er því umdeilt atriði líkt og sjálfar stjórnlagaþingskosningarnar sem voru dæmdar ógildar með dómi. Þegar spurt er um hvort í nýrri stjórnarskrá skuli vera ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi er lítill munur þ.e. 59% segja já en 41% segja nei. Þetta er því umdeilt atriði samkvæmt þessari könnun og ekkert afgerandi svar í átt til sáttar.

Þegar spurt er um hvort eigi að vera persónukjör í kosningum til Alþingis í meira mæli en nú, kemur í ljós afgerandi hlutfall þ.e. 75% segja já en 25% nei. Þetta gefur vísbendingu um að meirihluti vilji breyta þessu og þá er eðlilegt að spyrja nánar út í slíkt með undirspurningum. Þegar spurt er hvort atkvæði kjósenda eigi að vigta jöfn á öllu landinu kemur einnig í ljós afgerandi hlutfall þ.e. 71% segja já en 29% nei. Þetta atriði er eitt af því sem þarf að skoða nánar og reyndar benda þessar tvær spurningar um persónukjör og vigt atkvæða til þess að meirihluti gæti viljað breyta kosningakerfinu okkar.

Þegar spurt er um hvort vilji sé til þess að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæði er hlutfallið mjög skýrt þ.e. 80% segja já en 20% nei. Þetta bendir til þess að meirihluti sé raunverulega ánægður með þá virkni sem núverandi forseti Ólafur Ragnar hefur sýnt í embætti. Þetta er því atriði sem þarf að spyrja nánar um með undirspurningum.

Þegar spurt er um hvort náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu eigi að vera lýstar þjóðareign er svarhlutfallið einnig skýrt þ.e. 77% segja já en 23% nei. Þetta bendir til þess að hér þurfi að spyrja nánar. Grundvallaratriði til þess að geta spurt um auðlindir, er þó að hugtakið „auðlind“ verði skilgreint þannig að allir viti hvað þeir eru að kjósa um. Það þarf að skilgreina hvað á að teljast „auðlind“ samkvæmt stjórnarskrá. Land í heild? Loft, andrúmsloft, blómin í haganum , moldin, mölin, fjallgrösin, ár, vötn, grunnvatn, málmar, orka, sjávardýr, dýr á landi o.s.frv. Hvar á að draga mörkin? Af þessu leiðir að spyrja þarf um eignarréttindi og nýtingarétt.

Það er ljóst að það þarf að vanda miklu betur til við breytingu á stjórnarskrá heillar þjóðar en ekki keyra breytingar í gegn með offorsi og látum á völtu þingi. Um breytinguna þarf að ríkja sátt meðal þjóðarinnar, ekki bara á þessu sama valta þingi. Þótt einhverjir segi að þingið sendurspegli þjóðina þá er ég ekki viss um að margir séu því endilega sammála um þessar mundir. Mjög margir vilja alþingiskosningar nú og vantraustið er nánast algjört. Það er ljóst af þessu að flestir svarendur könnunarinnar vilja breyta atriðum eins og persónukjöri, atkvæðavægi, þjóðaratkvæðagreiðslum og eignarréttindum auðlinda. Þá á þingið að einhenda sér í þá vinnu og vanda til spurningakönnunar á landsvísu til allra kosningabærra manna og nýta til þess tæknina. Það gæti gerst með 2-4 spurningakönnunum eftir því sem svör liggja fyrir. Það á að breyta því sem flestir eru sammála um en láta annað sem er umdeildara bíða síns tíma. Stjórnarskrá má breyta með því að tvö þing samþykki breytinguna þ.e. kosningar þurfa að vera á milli. Persónulega finnst mér það fyrirkomulag ágætis öryggisventill. Misvitrir stjórnmálamenn eru þá ekki að ráðskast með þessa grundvallarlagastoð íslenskrar þjóðar án fyrirhafnar og umræðu.

Breytum því sem sátt ríkir um, ekki hinu. Það þarf hins vegar að drífa sig, enda ekki mikill tími er til stefnu. Ég vil alla vega sjá kosningar frekar fyrr heldur en seinna þó ég fái ekki persónukjörið sem ég vildi að sinni. Maður fær heldur ekki alltaf allt sem maður vill!

Könnunina sem ég vísa til er fjallað um hér http://www.visir.is/um-80-prosent-vilja-ad-almenningur-geti-krafist-thjodaratkvaedagreidslu/article/2012120409715?fb_ref=under&fb_source=home_multiline

Höfundur: Vilborg G Hansen http://villagunn.blog.is/blog/villagunn/entry/1233344/ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvað snertir frumvarp stjórnlagaráðs er þetta skýrt: "Auðlndir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu..."stendur í greininni.

Það þýðir að alls ekki er verið sé að tala um að taka jarðir af bændum eða veiðirétt af veiðifélögum.

Enginn fulltrúi í stjórnlagaráði fékk nákvæmlega þá stjórnarskrá sem hann vildi, - allir urðu að gefa eitthvað eftir vegna þess að þjóðin getur ekki haft nema eina stjórnarskrá, - ekki margar.

Þar náðist sátt, 25-0 og mér sýnist hún vera mjög á svipuðu róli og skoðanakönnunin sú arna leiðir í ljós, enda voru fulltrúar í ráðinu af öllum aldri og þjóðfélagshópum.

Spurninguna: Vilt þú að ákvæði um þjóðkirkju séu í stjórnarskrá?... virðist vera hægt að toga og teygja í ýmsar áttir.

Nær væri að spyrja: Vilt þú að núverandi grein haldi sér eða tillaga stjórnlagaráðs?

Þá gefst beinn samanburður.

Í núverandi grein segir að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldinu beri að styðja hana og vernda. Ef þessu sé breytt verði að gera það með þjóðaratkvæðaðgreiðslu.

Orðin "evangeliska lúterska kirkja" eru óskýr. Fríkirkjusöfnuðir eru evangelisk lúterskir og njóta samt engrar sérstakrar vendar eða stuðnings ríkisvaldsins.

Stjórnlagaráð náði þeirri sátt að setja fram ákvæði um það að ekki megi breyta kirkjuskipan með lögum nema það fari í þjóðaratkvæði.

Í þessu felst að kirkjuskipanin, þ. e. staða Þjóðkirkjunnar og annarra safnaða geti verið óbreytt áfram án þess að sérstaklega sé kveðið á um sérstaka vernd og stuðning ríkisvaldsins handa þeim hluta hinnar evangelisku lútersku kirkjum sem nefnir sig Þjóðkirkju, enda hafa prestar sjálfir talið þessa stuðnings- og verndaryfirlýsingu vera úrelta.

Í stjórnlagaráði voru tveir þjóðkirkjuprestar og aðrir sem hafa verið í safnaðarstjórnum bæði í þjóðkirkjunni og annars staðar og lendingin var eins og greinir hér að ofan.

Hún fólst í því að sníða af úrelt ákvæði en tryggja að vandað sé til lagasetningar og ekkert gert án samráðs við þjóðina sjálfa.

Ómar Ragnarsson, 10.4.2012 kl. 22:55

2 Smámynd: Vilborg G. Hansen

Það sem ég er að benda á Ómar er að það er ekki hægt að nota orðið "auðlind" fyrr en búið er að skýra út hvað það merkir og nær til. Annars er hægt að misnota það í framtíðinni.

Vilborg G. Hansen, 11.4.2012 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband