Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Færi aldrei fyrir dómstóla?

Einhverjir sem studdu Icesave III samningana og jafnvel samningana sem gerðir voru á undan þeim hafa að undanförnu viljað meina að andstæðingar samninganna hafi haldið því fram í aðdraganda þjóðaratkvæðisins fyrir ári að Icesave-málið færi aldrei fyrir dómstóla ef samningunum yrði hafnað.

Þetta er þó ekki rétt. Það var einmitt kallað eftir því af þeim að farin yrði svonefnd dómstólaleið. Allajafna var ekki gert ráð fyrir öðru en að málið færi þá leið yrði samningunum hafnað og þá ekki sízt í ljósi þess að Eftirlitsstofnun EFTA hafði þegar hótað málssókn fyrir EFTA-dómstólnum.

Hins vegar var því haldið fram að ef niðurstaðan fyrir EFTA-dómstólnum yrði Íslendingum óhagstæð þá væri afar ólíklegt að Bretar og Hollendingar létu af því verða að fara í skaðabótamál gegn íslenzka ríkinu sem reka þyrfti fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem er varnarþing ríkisins.

Það eru þessi tvö dómsmál sem einhverjir hafa verið að rugla saman.

Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson  http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1233971/#comments 

Grynnri og styttri kreppur takk

Fjármálakreppur eru býsna algengar. Um 100 lönd hafa gengið gegnum fjármála- eða gjaldmiðilskreppu á undanförnum 40 árum. Því miður bendir fátt til þess að slíkar kreppur séu úr sögunni. Það mætti vissulega gera ýmislegt til að minnka líkur á kreppum, en í þessum pistli verður hins vegar rætt um hugmynd þeirra Markus Miller’s og Joseph Stiglitz um hvernig megi draga úr því tjóni sem kreppum fylgir.

Við venjulegar aðstæður er ólíklegt að vel rekin fyrirtæki lendi í gjaldþroti. En þegar efnahagsáfall dynur yfir geta tugir þúsunda aðila lent í vanskilum samtímis óháð því hvernig staðið var að rekstrinum. Gjaldþrotaleiðin er dýr og tekur langan tíma að ljúka hverju búi. Sé sú leið farin með stóran hluta atvinnulífsins, getur það í sjálfu sér leitt til keðjuverkana, þannig að enn fleiri fyrirtæki fari á hausinn, atvinnuleysi verði enn meira og kreppuaástand vari mun lengur. Því má halda fram að þannig tapi kröfuhafar mun meiru en ef þeir hefðu strax gefið afslátt af kröfum sínum og þannig haldið sem flestum fyrirtækjum í rekstri.

Hugmynd Miller’s og Stiglitz gengur einmitt út á setja í lög ákvæði um hálf-sjálfvirka lækkun allra skulda ef gjaldmiðill lands fellur umfram viss mörk. Þeir hafa sýnt framá að slík almenn skuldalækkun fækki mjög þeim fyrirtækjum sem fara í þrot, hagkerfið nái sér þannig fyrr eftir áfallið og kröfuhafar fái þegar upp er staðið meira upp í kröfur.

Þeir Miller og Stiglitz segja lítið um hvernig eigi að útfæra slíka löggjöf. Væntanlega þyrfti að ákveða hve mikið gjaldmiðill þyrfti að falla, eða þjóðartekjur að dragast saman, til að vera til að virkja ákvæði um lækkun skulda. Einnig þyrfti að tilgreina hvað skuldir myndu lækka mikið við tiltekið fall og fleira í þeim dúr. 

Miller og Stiglits kynntu þessa hugmynd fyrst árið 1998. Það hefði án efa verið til bóta ef þannig ákvæði hefði verið til staðar í hruninu 2008, það hefði dregið úr gjaldþrotum og atvinnuleysi. Lærum nú af reynslunni og setjum hér lög um sjálfvirka skuldaleiðréttingu í tæka tíð fyrir næstu kreppu.

Heimild:

Bankruptcy protection against macroeconomic shocks: the case for a “super Chapter 11” Marcus Miller, University of Warwick and Joseph Stiglitz World Bank Revised December 1999

http://url.is/5su

Höfundur: Frosti Sigurjónsson http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/frostisig/1234214/  


Ögmundur við ætlum EKKI á hnén. ESB umsókninni er sjálfhætt.

Ögmundur Jónasson spyr hvort við ætlum á hnén?  Nei við ætlum ekki á hnén, en því miður eru samstarfmenn hans í ríkisstjórn á því að við eigum að fara á hnén.  Þeir eru margir löngu komnir á hnén og líkar það vel að virðist vera.  Þeir hafa einhverja aðra sýn sem þeim líkar svo vel!  Nú þarf Ögmundur að standa í lappirnar og framkvæma það sem hugurinn og hjartað segir honum að gera.  Ekkert er merkilegra en að standa með þjóð sinni og sjálfstæði hennar þegar á reynir.  Ólafur Ragnar gerði það í Icesavemálinu og uppskar fyrirgefningu hverra þeirra synda sem hann átti að hafa gert.  Í þessu máli er ekkert sem heitir að ná saman um stríðandi fylkingar.  Finna lausn sem allir geta sætt sig við.  Þetta er ekki flóknara en að annars vegar erum við að ganga í ESB og hins vegar viljum við það ekki, sama hvað samningurinn segir.  Stjórnmálamenn þurfa að taka hreina afstöðu í þessu máli og hætta að skýla sér á bak við loðin orð til að hanga lengur í embætti.  Þjóðin var ekki spurð hvort hún vildi í þessar viðræður heldur var umsókninni lætt í gegnum alþingi í krafti meirihluta fólks sem kaus samkvæmt sannfæringu sinni, ekki stefnu flokks síns.  Trúlega voru og eru margir enn í vitlausum flokkum!  Óneitanlega kemur persónukjör upp í hugann og hvort það væri ekki heiðarlegra!  Þá vissum við alla vega fyrir hvað fólk stendur, því ekki stoðar lengur að lesa stefnu flokkanna og treysta því að flokksmenn velji frambjóðendur fari að vilja þeirra! 

Það eina rétta í stöðunni nú er að afturkalla umsóknina með tilkynningu frá stjórnvöldum. Það má þess vegna leggja hana til hliðar þar til úr Icesave málinu verður skorið.  En heiðarlegast af öllu væri að þakka bara pent fyrir okkur, og segja nei takk, þetta hentar okkur ekki að sinni.  Snúa okkur hér að uppbyggingu, atvinnusköpun og frelsi fólks til athafna og nýsköpunar.  Nóg er af tækifærum það þarf miklu frekar að virkja fólk til þess að þora af stað með hugmyndir sínar og grípa tækifærin í því árferði sem nú ríkir.  Óvissa er ekki góð fyrir neinn rekstur hvorki fyrirtæki né heimili.  Heimilin geta ekki verið án fyrirtækjanna og öfugt.  Ríkið getur heldur ekki verið án fyrirtækjanna og heimilanna.  

Þetta er það Ísland sem við þekkjum og við viljum bara fá að njóta þess aftur og halda áfram að búa hér á þessu fallega náttúru Fróni.

Við eigum gnægtir af öllu, bara ef við kunnum að fara með þessar gnægtir og nýta þær skynsamlega en ekki í skyndigróða andartaksins.

Höfundur: Vilborg G Hansen 


mbl.is Segir ESB vilja Íslendinga niður á hnén
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýst um gengi gjaldmiðla

Ég skrifaði í gær um verðlagið í Svíþjóð og frétt Ríkisútvarpsins um að Norðmenn flykktust þangað til þess að verzla og væru þannig að kjósa Evrópusambandið með fótunum en ólíkt Svíum eru frændur okkar Norðmenn ekki þar innaborðs.

Eins og ég benti á verður að setja alla umræðu um verðlag í löndum í samhengi við kaupmátt fólks. Á sama tíma og Norðmenn fara til að verzla ódýrar í Svíþjóð hópast Svíar til Noregs til þess að fá vinnu og betri laun en í heimalandinu.

En fólksflutningarnir eru fleiri. Þannig hafa Danir um árabil einnig hópast til Svíþjóðar til þess að verzla ódýrar en heimafyrir. Danmörk er eins og Svíþjóð í Evrópusambandinu en danska krónan er hins vegar beintengd við gengi evrunnar ólíkt þeirri sænsku.

Sé framsetning Ríkisútvarpsins yfirfærð á Dani hlýtur sú ályktun að vera dregin að þeir séu með verzlunarferðum sínum til Svíþjóðar að kjósa með fótunum og lýsa yfir óánægju sinni með tengingu dönsku krónunnar við evruna.

Málið snýst fyrst og fremst um gengi gjaldmiðla. Á meðan sænska krónan hefur lækkað og þar með gert sænskar vörur samkeppnishæfari hefur gengi norsku krónunnar hækkað. Danska krónan hefur á sama tíma haldist tiltölulega há vegna tengingarinnar við evruna.

Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1233540/ 


Þjóðin og stjórnarskráin - breytum því sem sátt ríkir um.

Nú í aðdraganda forsetakosninga er eðlilegt að fólk ræði stjórnarskrána og breytingar á henni. Þrátt fyrir að ekki væri meirihluti á þingi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar meðfram forsetakosningum, þýðir það ekki, að ekki þurfi að spyrja þjóðina eins né neins. Mín tilfinning er sú að mikill hluti landsmanna vilji hafa eitthvað um þetta að segja, þó þeir telji sig ekki næga sérfræðinga til að hafa vit fyrir öllu. Þetta er ekkert einfalt! Ég persónulega er ekki áhugasöm um að blanda forsetakosningum og stjórnarkrárkosningum saman. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þetta tvennt fléttast saman ef breyta á hlutverki forseta og þings. Ég er líka hrædd við að umbylta stjórnarskráni á einu bretti. Ég er náttulega óttalegt íhald og vil engar breytingar, breytinganna vegna. Ég hins vegar styð það að margt í henni þurfi að breytast, en vanda þarf til og já það á að spyrja þjóðina. Við höfum tæknina og þurfum ekki forsetakosningar til þess. Rafrænar kosningar eru einfaldar og mun skilvirkari og fljótlegar því tölvur geta unnið úr niðurstöðum fljótt og örugglega. Það má auðveldlega finna aðra leið fyrir þá sem ekki geta tekið þátt í slíkum kosningum enda kannski um 15% kosningabærra manna eða minna að ræða.

Athyglisverð könnun var gerð í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og birt á visir.is nú 3 apríl s.l. Þarna var verið að spyrja grunndvallaspurninga um stjórnarskrána okkar. Þótt þessi spurningakönnun sé kannski ekki sú vísindalegasta og taki aðeins til þeirra sem hlusta á Reykjavík síðdegis og fara inn á visir.is til þess að svara, gefur hún mikilvægar vísbendingar. Nægilegar vísbendingar að mínu mati til þess að hér verði kostað til alvöru könnunar allra kosningabærra manna um þessi efnisatriði hjá þjóðinni til þess að leggja til grundvallar breytingum á stjórnarskráni. Það mætti meira að segja gera þetta í tvennu, jafnvel þrennu lagi til þess að sjá hvað er umdeilt og hvað ekki og spyrja svo endanlega nánar út í það sem mikill meirihluti kjósenda er sammála um að breyta. Í þessari könnun Reykjavík síðdegis er mjög afgerandi svarhlutfall þ.e. í sumum spurningum fer hlutfall yfir 70% sem verður að teljast hátt, en í öðrum liggur það á bilinu 41-59% sem er ekki eins afgerandi.

Þegar spurt er um hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að liggja til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá er munurinn lítill þ.e. 57% segja já en 43% segja nei. Þetta er því umdeilt atriði líkt og sjálfar stjórnlagaþingskosningarnar sem voru dæmdar ógildar með dómi. Þegar spurt er um hvort í nýrri stjórnarskrá skuli vera ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi er lítill munur þ.e. 59% segja já en 41% segja nei. Þetta er því umdeilt atriði samkvæmt þessari könnun og ekkert afgerandi svar í átt til sáttar.

Þegar spurt er um hvort eigi að vera persónukjör í kosningum til Alþingis í meira mæli en nú, kemur í ljós afgerandi hlutfall þ.e. 75% segja já en 25% nei. Þetta gefur vísbendingu um að meirihluti vilji breyta þessu og þá er eðlilegt að spyrja nánar út í slíkt með undirspurningum. Þegar spurt er hvort atkvæði kjósenda eigi að vigta jöfn á öllu landinu kemur einnig í ljós afgerandi hlutfall þ.e. 71% segja já en 29% nei. Þetta atriði er eitt af því sem þarf að skoða nánar og reyndar benda þessar tvær spurningar um persónukjör og vigt atkvæða til þess að meirihluti gæti viljað breyta kosningakerfinu okkar.

Þegar spurt er um hvort vilji sé til þess að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæði er hlutfallið mjög skýrt þ.e. 80% segja já en 20% nei. Þetta bendir til þess að meirihluti sé raunverulega ánægður með þá virkni sem núverandi forseti Ólafur Ragnar hefur sýnt í embætti. Þetta er því atriði sem þarf að spyrja nánar um með undirspurningum.

Þegar spurt er um hvort náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu eigi að vera lýstar þjóðareign er svarhlutfallið einnig skýrt þ.e. 77% segja já en 23% nei. Þetta bendir til þess að hér þurfi að spyrja nánar. Grundvallaratriði til þess að geta spurt um auðlindir, er þó að hugtakið „auðlind“ verði skilgreint þannig að allir viti hvað þeir eru að kjósa um. Það þarf að skilgreina hvað á að teljast „auðlind“ samkvæmt stjórnarskrá. Land í heild? Loft, andrúmsloft, blómin í haganum , moldin, mölin, fjallgrösin, ár, vötn, grunnvatn, málmar, orka, sjávardýr, dýr á landi o.s.frv. Hvar á að draga mörkin? Af þessu leiðir að spyrja þarf um eignarréttindi og nýtingarétt.

Það er ljóst að það þarf að vanda miklu betur til við breytingu á stjórnarskrá heillar þjóðar en ekki keyra breytingar í gegn með offorsi og látum á völtu þingi. Um breytinguna þarf að ríkja sátt meðal þjóðarinnar, ekki bara á þessu sama valta þingi. Þótt einhverjir segi að þingið sendurspegli þjóðina þá er ég ekki viss um að margir séu því endilega sammála um þessar mundir. Mjög margir vilja alþingiskosningar nú og vantraustið er nánast algjört. Það er ljóst af þessu að flestir svarendur könnunarinnar vilja breyta atriðum eins og persónukjöri, atkvæðavægi, þjóðaratkvæðagreiðslum og eignarréttindum auðlinda. Þá á þingið að einhenda sér í þá vinnu og vanda til spurningakönnunar á landsvísu til allra kosningabærra manna og nýta til þess tæknina. Það gæti gerst með 2-4 spurningakönnunum eftir því sem svör liggja fyrir. Það á að breyta því sem flestir eru sammála um en láta annað sem er umdeildara bíða síns tíma. Stjórnarskrá má breyta með því að tvö þing samþykki breytinguna þ.e. kosningar þurfa að vera á milli. Persónulega finnst mér það fyrirkomulag ágætis öryggisventill. Misvitrir stjórnmálamenn eru þá ekki að ráðskast með þessa grundvallarlagastoð íslenskrar þjóðar án fyrirhafnar og umræðu.

Breytum því sem sátt ríkir um, ekki hinu. Það þarf hins vegar að drífa sig, enda ekki mikill tími er til stefnu. Ég vil alla vega sjá kosningar frekar fyrr heldur en seinna þó ég fái ekki persónukjörið sem ég vildi að sinni. Maður fær heldur ekki alltaf allt sem maður vill!

Könnunina sem ég vísa til er fjallað um hér http://www.visir.is/um-80-prosent-vilja-ad-almenningur-geti-krafist-thjodaratkvaedagreidslu/article/2012120409715?fb_ref=under&fb_source=home_multiline

Höfundur: Vilborg G Hansen http://villagunn.blog.is/blog/villagunn/entry/1233344/ 


Matvælaverðið í Svíþjóð

 

"Munur á matarverði milli Noregs og Svíþjóðar hefur aukist stöðugt frá því Svíar gengu í Evrópusambandið fyrir 18 árum. Nú fyllyrða kaupmenn að þeir geti selt mat, til dæmis nautakjöt, á hálfvirði miðað við verð í Noregi. Oft munar þó þriðjungi. Því er sagt að þeir sem sögðu nei við aðild Noregs að sambandinu fyrir 18 árum kjósi nú með fótunum og taki sér stöðu við búðarkassana innan sænsku landamæranna."

Þessi texti er fenginn úr frétt sem birtist á vef Ríkisútvarpsins í gær. Ég hef aðeins verið að skoða þá umræðu sem hefur verið um hana á netinu og réttilega hafa ýmsir bent á að á sama tíma hópist Svíar til Noregs í vinnu. Bæði sé atvinnuleysi minna í Noregi og launin allajafna mun hærri.

Hvað fæst fyrir launin?

Það sem gleymist gjarnan að taka inn í myndina þegar verðlag er borið saman á milli landa (að því gefnu að um sambærilegar vörur sé að ræða sem allur gangur er víst á) er kaupmátturinn. Neytendur græða lítið á lágu verðlagi ef þeir geta lítið sem ekkert keypt fyrir launin sín.

Þannig má nefna að þegar íslenzkt verðlag var hér á árum áður borið saman við það sem gerðist annars staðar í Evrópu reyndist verðlagið iðulega lægst í Búlgaríu og Rúmeníu. En það verður hins vegar að teljast ólíklegt að Íslendingar gætu sætt sig við þarlend launakjör.

Þetta tvennt helst þó gjarnan í hendur. Verðlagið er oft hærra vegna þess að kaupmátturinn er meiri. Það væri lítið gagn í því að bjóða norskt vöruverð til dæmis í Rúmeníu. Það gætu sárafáir þar í landi keypt vörur á því verðlagi. En fólk getur það í Noregi.

Verðlag svipað og í ESB

Það er reyndar athyglisvert að samanburður á verðlagi á Íslandi og annars staðar í Evrópu sé ekki lengur reglulega í fréttum hér á landi. Ástæðan er ef til vill sú að verðlag hér eftir bankahrun mun hafa verið nokkurn veginn á pari við það sem gerst hefur að meðaltali innan Evrópusambandsins.

Þess utan er það merkileg ályktun í fréttinni að Norðmenn séu að kjósa með fótunum með því að verzla í Evrópusambandsríkinu Svíþjóð. Ekki sízt í ljósi nýjustu skoðanakannana þar í landi sem sýnt hafa einungis 12-13% hlynnt inngöngu í Evrópusambandið.

Það verður ekki séð að þetta hafi neitt með pólitík að gera. Norðmenn hafa skiljanlega ekkert á móti því að borga minna fyrir vörur í Svíþjóð. En þeir vilja hins vegar líklega ekki sænskan kaupmátt eða sænskt atvinnuleysi.

Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1233328/  


Gjaldmiðill gulli betri

Eitt mikilvægasta verkefni sem stjórnvöld geta annast fyrir landsmenn er að halda úti traustum gjaldmiðli. Sjálfstæður og vel rekinn gjaldmiðill sem tekur mið af þörfum hagkerfisins á hverjum tíma getur aukið hagvöxt og lífsgæði í landinu verulega umfram það sem mögulegt væri ef hér væri notuð erlend mynt.

 

Til mikils að vinna 
Þótt hér hafi orðið bankahrun og krónan bæði ofrisið og hrunið þá má ekki missa móðinn. Allt of margir vilja bara gefast upp. Ísland er ekki eina þjóðin sem hefur fengið skell. Norðmenn og Svíar lentu í bankakreppum á níunda áratugnum en hafa þrátt fyrir það náð góðum árangri í kjölfarið. Það getum við einnig og það ætti að vera okkar staðfasta markmið. Þrátt fyrir alls kyns mistök hafa lífsgæði landsmanna tekið ótrúlegum framförum. Ísland var eitt fátækasta land Evrópu fyrir rúmum mannsaldri síðan. Í dag, jafnvel eftir efnahagshrun, eru fá lönd sem geta státað af jafn góðum lífskjörum og Ísland. Vera má að dönsk króna hafi haldið verðgildi sínu 2.000 sinnum betur en krónan okkar, en trúir því einhver að hér væru lífskjör 2.000 sinnum betri ef hér hefði verið dönsk króna? Það mætti frekar spyrja hvort framfarir hefðu ekki einmitt verið hægari ef hér hefði verið erlend mynt í stað sjálfstæðrar krónu?

 

 

Atvinnuleysi hefði verið meira  
Það er óumdeilt að fastgengi leiðir til hærra atvinnuleysis. Ástæðan er sú að það getur tekið nokkur ár að lækka laun í niðursveiflu en það tekur ekki nema einn dag að lækka þau með gengisfellingu. Of há laun leiða til uppsagna eða gjaldþrota. Atvinnulaust fólk skapar engin verðmæti og það sem verra er, þeir sem hafa vinnu verða að borga hærri skatta til að greiða atvinnuleysisbætur. Krónan hefur oft fallið sem er vissulega slæmt en allir höfðu samt vinnu og hagsæld landsmanna jókst jafnt og þétt. Aukið atvinnuleysi hefði örugglega tafið framfarirnar.

 

 

Samdráttarskeið hefðu orðið dýpri og lengri 
Hagkerfi sem býr við fastgengi getur ekki brugðist við niðursveiflu með því að lækka gengi myntarinnar. Fjármagn streymir þá yfirleitt úr landi og til þeirra landa þar sem betur árar og betri ávöxtun býðst. Afleiðingin er enn sárari skortur á fjármagni til framkvæmda einmitt þegar mest ríður á að auka atvinnu. Lengri samdráttarskeið hefðu án efa dregið úr langtímahagvexti.

 

 

Myntsláttuhagnaður hefði runnið úr landi 
Myntsláttuhagnaður rennur til þess seðlabanka/ríkis sem gefur út gjaldmiðillinn. Myntsláttuhagnaður verður til þegar peningamagn er aukið til að mæta vexti hagkerfisins eða til að veikja gengið. Hér hefur hagkerfið iðnvæðst og margfaldast að stærð á einum mannsaldri. Íbúafjöldi landsins hefur líka margfaldast. Hér var þessu mætt með því að framleiða fleiri krónur. Án krónu hefði Ísland þurft að kaupa og flytja inn mikið magn af erlendri mynt til að auka peningamagn í umferð. Magnið samtals væri líklega nálægt grunnfé Seðlabankans í dag eða um 90 milljarðar. Það hefði því ekki verið hægt að fjárfesta jafn mikið í innviðum og framleiðslutækjum ef myntsláttuhagnaður hefði runnið úr landi í öll þessi ár.

 

 

Truflanir frá erlendu myntinni 
Erlenda myntin hefði tekið mið af aðstæðum í útgáfulandinu. Uppsveifla í því landi hefði getað leitt til hærra vaxtastigs en Íslenska hagkerfið hefði þolað. Afleiðingin hefði getað verið gjaldþrot og minni framkvæmdir og verkefni en ella. Hagvöxtur hefði því tafist. En stundum hefðu vextir verið of lágir fyrir Ísland og það leitt til offjárfestingar, jafnvel í óarðbærum verkefnum. Þessar utanaðkomandi sveiflur hefðu verið sem steinar í götu íslenska hagkerfisins og hægt á framförunum. Vonandi er ljóst af þessum dæmum að þrátt fyrir allt hefur krónan verið nauðsynlegt til að koma þjóðinni úr hópi fátækustu þjóða Evrópu í hóp þeirra ríkustu. Hún getur haldið áfram að þjóna landsmönnum um ókomin ár. Vissulega mætti tína til einhverja smávægilega ókosti og kostnaðarliði við að hafa sjálfstæða mynt. Um þessa hluti er mikið skrifað þessa dagana og best að vísa áhugasömum á þau skrif. En tilgangurinn með þessum pistli er að benda á nokkra af kostunum við að hafa sjálfstæða mynt.

 

Höfundur: Frosti Sigurjónsson http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/frostisig/1233154/ 


Spyrjum fyrst, kjósum svo......

Lengi höfum við Íslendingar viljað halda í þá hefð að forsetaembættið okkar sé ópólitískt. Litið svo á að forseti vor sé sameiningartákn þjóðarinnar. Öryggisventill ef einræðistilburðir eða eitthvað það er gert á þingi sem fer gegn þjóðarhagsmunum. Ólafur Ragnar sannaði gildi sitt sem þessi öryggisventill þegar alþingi strauaði Icesave í gegnum þingið. En alveg frá því Ólafur Ragnar bauð sig fram til forseta hefur forsetaembættið í raun verið rammpólitískt, enda maðurinn mikill pólitíkus. Embættið hefur líka tekið ákveðnum breytingum. Ég tek það fram að ég er ekki á móti því að forseti beiti neitunarvaldi sínu sér í lagi þegar tugþúsundir undirskrifta berast um að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er einmitt þannig sem mér finnst að þetta eigi að virka. Hins vegar hefur minn skilningur á Stjórnarskrá okkar verið sá að ef þjóðin er sammála forsetanum um að neita lögum, þá skuli sitjandi ríkisstjórn víkja. Sviss hefur brúkað þjóðaratkvæðagreiðslur til margra ára og er ekkert sem bendir til annars en að þær virki vel ef rétt er að staðið. Við þurfum því ekkert að láta sem við séum að finna upp hjólið hér, enda erum við engir snillingar þótt margir hafi haldið það um nokkurt skeið!

Nú hafa nokkrir frambjóðendur stigið fram og vilja í embætti forseta Íslands. Eflaust munu margir reyna að telja okkur trú um að þeir séu ópólitískir og alveg lausir við alla flokkadrætti, tengsl, sérhagsmuni eða annað slíkt. Jafnvel reyna að skauta fram hjá skoðunum um inngöngu í ESB. En ef við erum einlæg og hreinskilin þá sjá þeir sem vilja opna augun að ESB málin vofa yfir þessari kosningu til embættis forseta. Þetta mál er ekki bara undirliggjandi heldur allt um kring. Alþingi samþykkti án þess að spyrja þjóðina að sækja um inngöngu i ESB. Gleymum því aldrei. Kosningarnar eru því orðnar rammpólitískar og alveg eins gott að fara út í þær og iðka þær á þeim forsendum í stað þess að villa um fyrir kjósendum á kostnað lýðræðisins. Ef upplýsingar til kjósenda eru loðnar, óljósar eða látið leggjast undir höfuð að segja frá, virkar lýðræðið ekki. Fjölmiðar verða að sjá til þess að spyrja frambjóðendur réttu spurninganna, þjarma að frambjóðendum og bakgrunnskanna, til þess að lýðræðið sé virkt. Við sem kjósendur eigum rétt á upplýsingum þótt frambjóðendur vilji ekki upplýsa. Við ættum að vera farin að átta okkur á því að SPYRJA fyrst, KJÓSA svo! Það gengur ekki lengur að fólk komi fram og segist vilja þetta og hitt, standi fyrir einhvern málstað, en fari svo og geri eitthvað allt annað og þar með stundi blekkingarleik um atkvæði fólks. Það er miklu heiðarlegra að hafa þetta uppi á borðum og kalla hlutina réttum nöfnum. Hvað er að því að vera samkvæmur sjálfum sér og fylgja sannfæringu sinni? Æji já ég gleymdi. Það skilar oftast ekki völdum nema meirihlutinn sé sammála líka! Það er lýðræði. Annað er hræsni og hroki!

Í dag þegar stjórnmálamaður eða frambjóðandi segist ætla að labba Laugarveginn, þá er maður ekkert hissa á því að hitta hann eftir kosningar úti á Granda. Jafnvel komast að því að hann gekk aldrei Laugarveginn! Slíkt náttulega gengur ekki. Ef frambjóðandi segist ætla í vestur, þá á hann ekki að fara í austur. Það eru svik við kjósendur og merki um að lýðræðið sé ekki að virka. Svona rétt eins og falið og flækt eignarhald á fyrirtækjum tengdra aðila til þess að ná meiriháttar markaðshlutdeild á kostnað neytenda. Réttar upplýsingar til kjósenda eru forsenda þess að lýðræðislegar kosningar geti farið fram og endurspegli VILJA kjósenda. Fjölmiðlar hafa því ærnu og mikilvægu hlutverk að gegna. Við sem kjósendur þurfum líka að muna að treysta ekki í blindni og spyrja fyrst, kjósa svo.

Forsetakosningar á Íslandi nú árið 2012 tæpum 4 árum eftir hrun, snúast ekki um neitt annað en pólitík. Þar sem ég persónulega er mikill ESB andstæðingur þá mun ég eðlilega EKKI kjósa neinn þann sem minnsti möguleiki er á að vilji okkur inn í ESB. Hvorki í fosetakosningum nú eða komandi prófkjörum. Aðrir hafa síðan sína skoðun á þessu máli, eðlilega. Stöndum nú einu sinni upp fyrir sjálfum okkur og vöndum okkur sem kjósendur

Höfundur: Vilborg G Hansen http://villagunn.blog.is/blog/villagunn/entry/1233168/


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband