Matvælaverðið í Svíþjóð

 

"Munur á matarverði milli Noregs og Svíþjóðar hefur aukist stöðugt frá því Svíar gengu í Evrópusambandið fyrir 18 árum. Nú fyllyrða kaupmenn að þeir geti selt mat, til dæmis nautakjöt, á hálfvirði miðað við verð í Noregi. Oft munar þó þriðjungi. Því er sagt að þeir sem sögðu nei við aðild Noregs að sambandinu fyrir 18 árum kjósi nú með fótunum og taki sér stöðu við búðarkassana innan sænsku landamæranna."

Þessi texti er fenginn úr frétt sem birtist á vef Ríkisútvarpsins í gær. Ég hef aðeins verið að skoða þá umræðu sem hefur verið um hana á netinu og réttilega hafa ýmsir bent á að á sama tíma hópist Svíar til Noregs í vinnu. Bæði sé atvinnuleysi minna í Noregi og launin allajafna mun hærri.

Hvað fæst fyrir launin?

Það sem gleymist gjarnan að taka inn í myndina þegar verðlag er borið saman á milli landa (að því gefnu að um sambærilegar vörur sé að ræða sem allur gangur er víst á) er kaupmátturinn. Neytendur græða lítið á lágu verðlagi ef þeir geta lítið sem ekkert keypt fyrir launin sín.

Þannig má nefna að þegar íslenzkt verðlag var hér á árum áður borið saman við það sem gerðist annars staðar í Evrópu reyndist verðlagið iðulega lægst í Búlgaríu og Rúmeníu. En það verður hins vegar að teljast ólíklegt að Íslendingar gætu sætt sig við þarlend launakjör.

Þetta tvennt helst þó gjarnan í hendur. Verðlagið er oft hærra vegna þess að kaupmátturinn er meiri. Það væri lítið gagn í því að bjóða norskt vöruverð til dæmis í Rúmeníu. Það gætu sárafáir þar í landi keypt vörur á því verðlagi. En fólk getur það í Noregi.

Verðlag svipað og í ESB

Það er reyndar athyglisvert að samanburður á verðlagi á Íslandi og annars staðar í Evrópu sé ekki lengur reglulega í fréttum hér á landi. Ástæðan er ef til vill sú að verðlag hér eftir bankahrun mun hafa verið nokkurn veginn á pari við það sem gerst hefur að meðaltali innan Evrópusambandsins.

Þess utan er það merkileg ályktun í fréttinni að Norðmenn séu að kjósa með fótunum með því að verzla í Evrópusambandsríkinu Svíþjóð. Ekki sízt í ljósi nýjustu skoðanakannana þar í landi sem sýnt hafa einungis 12-13% hlynnt inngöngu í Evrópusambandið.

Það verður ekki séð að þetta hafi neitt með pólitík að gera. Norðmenn hafa skiljanlega ekkert á móti því að borga minna fyrir vörur í Svíþjóð. En þeir vilja hins vegar líklega ekki sænskan kaupmátt eða sænskt atvinnuleysi.

Höfundur: Hjörtur J. Guðmundsson http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/1233328/  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband